Þjálfari Stjörnunnar Arnar Guðjónsson hefur verið dæmdur í eins leiks bann af Aga- og úrskurðarnefnd fyrir háttsemi sína í leik liðsins gegn Keflavík í síðustu umferð Subway deildarinnar. Arnar var reyndar ekki eini meðlimur Stjörnunnar sem sendur var í sturtu í 28 stiga tapi liðsins suður með sjó, en hvorki Hlynur Bæringsson né Dagur Kár Jónsson náðu að klára leikinn.
Samkvæmt nefndinni mun Arnar vera sá eini sem fer í bann um sinn, en Hlyni Bæringssyni var gert að sæta áminningu og þá á eftir að taka fyrir mál Dags.
Hér fyrir neðan má sjá úrlausnir Aga- og úrskurðarnefndar:
Agamál 51/2022-2023
Með vísan til ákvæðis b. liðar 1. mgr. 13. gr. reglugerðar um aga- og úrskurðarmál skal hinn kærði, Arnar Guðjónsson, þjálfari Stjörnunnar, sæta eins leiks banni vegna háttsemi sinnar í leik Keflavík gegn Stjörnunni, sem fram fór þann 20 janúar 2023.
Agamál 53/2022-2023
Með vísan til ákvæðis a. liðar 1. mgr. 13. gr. reglugerðar um aga- og úrskurðarmál skal hinn kærði, Hlynur Bæringsson, leikmaður Stjörnunnar, sæta áminningu vegna háttsemi sinnar í leik Keflavík gegn Stjörnunni, sem fram fór þann 20 janúar 2023.
Agamál 54/2022-2023
Með vísan til ákvæðis a. liðar 1. mgr. 13. gr. reglugerðar um aga- og úrskurðarmál skal hinn kærða, Jayla Nacole Johnson, leikmaður Tindastóls, sæta áminningu vegna háttsemi sinnar í leik Stjörnunnar gegn Tindastól, sem fram fór þann 21 janúar 2023.