Jón Axel Guðmundsson úr Grindavík heldur áfram að gera frábæra hluti hjá Davidson háskólanum og í gærkvöldi var kappinn stigahæstur með 22 stig gegn VMI háskólanum. Að auki tók Jón 7 fráköst, stal 4 boltum og gaf 2 stoðsendingar. Jón hefur byrjað árið gríðarlega vel og skemmst er frá því að segja að hann setti 19 stig gegn stórveldi UNC Tar Heels fyrir fáeinum dögum. Sjálfur Michael Jordan var viðstaddur þann leik og sá Jón Axel leika listir sínar eins og sagt hefur verið frá. Davidson vann leikinn á heimavelli sínum Belk Arena með 74 stigum gegn 51.
Í gærkvöldi var annað goð á svæðinu en Stephen Curry gerði sér ferð í sinn gamla skóla og náði leiknum í gær. Curry gerir það árlega að mæta á í það minnsta einn leik með sínum gamla skóla. "Hann er alger fagmaður, hvetur okkur áfram og mætir svo inní klefa eftir leik." sagði Jón Axel eftir leik í gær.
En spjölluðu þeir félagar eitthvað saman eftir leik. "Já já, við spjölluðum. Hann sagði mér bara að halda áfram að vera grimmur á að sækja á körfuna og spila áfram eins og þú ert að spila. Þá er stutt í að við hittumst á vellinum." sagði Jón Axel Guðmundsson í samtali við Karfan.is Ekki dónaleg ummæli þar á ferð.
Curry er á meiðslalista Golden State Warriors þessa dagana eftir að hafa snúið sig illa á ökkla í leik á dögunum og eins og sjá má á myndinni að neðan er hann í einhverskonar spelku með okkar manni, Jóni Axel