Ísland mætir Sviss í undankeppni Eurobasket klukkan 15:30 að íslenskum tíma í dag. Leikurinn er sá fjórði hjá íslenska liðinu og síðasti útileikur liðsins í keppninni.
Við náðum tali af Craig Pedersen þjálfara íslenska liðsins rétt eftir æfingu liðsins í Fribourg í morgun og fengum hann til að segja okkur frá leik kvöldsins.
„Þetta verður erfiður leikur. Sviss spilar vel á heimavelli þrátt fyrir að þeir hafi tapað gegn Kýpur hérna í síðasta leik.“ sagði Craig og bætti við:
„Þeir geta hitt mörgum þriggja stiga skotum. Mikilvægast í dag að við mætum að krafti inní leikinn, vera harðir frá upphafi og ekki gefa þeim neitt auðvelt í leiknum.“
„Við þurfum að spila hraðan leik sem er einn af okkar styrkleikum. Það er mikilvægt að við séum tilbúnir varnarlega og komið í veg fyrir að þeir fái auðveld stig svo við getum sótt hratt í bakið á þeim og beitt skyndisóknum eins mikið og mögulegt er.“
Ísland mætti Sviss í fyrsta leik mótsins á heimavelli og vann Ísland þann leik með 11 stigum. Á Craig von á miklum breytingum hjá svissneska liðinu í kvöld?
„Já þeir mæta og reyna að spila kerfin sem hafa virkað vel hjá þeim sóknarlega, þeir fara væntanlega strax í það. Við þurfum að vera klárir að verjast því, svo við getum náð góðri byrjun á leiknum.“
Ægir Þór Steinarsson veiktist í gær og mun ekki geta spilað gegn Sviss og telur Craig að það áhrif á íslenska liðið.
„Auðvitað breytir fjarvera Ægis nokkru. Hann hefur komið með mikla orku í leik okkar og spilað mjög vel. Hann hefur varist mjög vel og komið hinum liðunum í vandræði. En þetta er eitt af því sem getur gerst. Nú verða aðrir bara að nýta tækifærið.“