Forkeppni Eurobasket 2021 hófst hjá Íslenska landsliðinu í dag með leik gegn Portúgal þar ytra. Leikur dagsins var hnífjafn nánast frá upphafi til enda. Ísland fékk tækifæri til að jafna eða ná sigri á lokaandartökunum en boltinn vildi ekki ofaní. Tap því staðreynd í dag, 80-77.
Craig Pedersen var að vonum svekktur eftir tapið. Hann var í viðtali við Portúgalska sjónvarpsstöð eftir leik þar sem hann sagði eftirfarandi:
„Við áttum í miklum vandræðum í þriðja leikhluta þar sem við töpuðum átta boltum. Við vorum einungis með fimm tapaða bolta í öllum fyrri hálfleik en heila átta bara í þriðja. Ekki nóg með að við vorum að tapa boltanum heldur fengu portúgalar hraðaupphlaups sniðskot úr því svo þeir þurftu ekki að vinna fyrir neinum stigum.“
„Þeir eru líka með stóran leikmann undir körfunni sem mætir Tryggva vel. Þeir spiluðu mjög líkamlega og tóku hart á honum. Tryggvi gerði vel, hann er enn ungur. Við gerðum of mörg mistök og nýttum tækifærin okkar ekki nægilega vel“ sagði Craig og bætti við að lokum:
„Verð að hrósa Portúgal líka. Þeir settu körfur og mikilvæg play þegar þeir þurftu á því að halda.“
Nánari umfjöllun um leikinn má finna hér.