Tindastóll gerði góða ferð í IceMar-Höllina í kvöld með spennusigri á Njarðvík í Bónus-deild kvenna. Lokatölur 76-77 þar sem Randi Brown var stigahæsti leikmaður vallarins með 32 stig fyrir Tindastól en hjá Njarðvík var Brittany Dinkins atkvæðamest með 21 stig og 8 stoðsendingar.
Brittany Dinkins var stigahæst hjá Njarðvík með 7 stig eftir fyrsta leikhluta en Njarðvík og Tindastóll voru jöfn 22-22 að honum loknum. Hjá gestunum var Randi Brown atkvæðamest með 10 stig.
Stólarnir áttu fínar rispur í öðrum leikhluta þar sem Randi Brown var áfram að hrella Njarðvíkurvörnina en hún var með 19 stig í hálfleik og Stólarnir leiddu 37-41 í hálfleik. Hjá Njarðvík var Dinkins stigahæst í hálfleik með 13 stig en Ena Viso sýndi lipra takta í öðrum leikhluta með 9 stig í hálfleik.
Tindastóll var sprækari í upphafi þriðja og komust í 44-48 en Njarðvíkurmegin var það Sara Björk Logadóttir sem var helst að láta til sín taka. Njarðvíkingar voru þó ekki lengi að svara og náðu forystunni 49-48 um miðjan þriðja leikhluta og þegar Hulda María Agnarsdóttir kom inná splæsti hún í fimm stig í röð og heimakonur komnar í 54-48 með 12-0 áhlaupi. Gestirnir svöruðu með sínu eigin 6-0 áhlaupi og því jafnt 56-56 fyrir fjórða.
Ena Viso kom Njarðvík í 67-58 með þrist þegar rúmar fimm mínútur voru eftir af leiknum, risa karfa í leik sem var hnífjafn og ef það var ekki þungt högg fyrir gestina bætti Sara Björk Logadóttir við öðrum þist í næstu sókn og Njarðvíkingar komnir með 70-58. Klara og Randi létu ekki skilja sig eftir í þristaveislunni fyrir hönd Stólanna og minnkuðu muninn í 70-67 á örskömmum tíma og rúmar þrjár mínútur eftir.
Randi Brown sem hafði reynst Njarðvík erfið allan leikinn nýtti sér einbeitingarleysi í vörn heimakvenna þegar rúm mínúta lifði leiks og skellti niður þrist og kom gestunum í 74-75 og þá komin með 32 stig og 6-10 í þristum, funheit í kvöld!
Þegar 10 sekúndur lifðu leiks tók Coulibaly rándýrt sóknarfrákast fyrir Tindastól og kom þeim yfir 76-77. Njarðvíkingar tóku leikhlé og fengu gott lokaskot í horninu en það geigaði og Tindastólskonur fögnuðu sigri og þeim þriðja í sögunni þegar þessi lið mætast í efstu deild á heimavelli Njarðvíkinga.
Gangur leiks
8-8, 22-22
29-32, 37-41
49-48, 56-56
70-64, 76-77
Myndasafn (Gunnar Jónatansson)