spot_img
HomeBónus deildinBónus deild kvennaCollier fór á kostum þegar Njarðvík lagði Fjölni

Collier fór á kostum þegar Njarðvík lagði Fjölni

Íslandsmeistarar Njarðvíkur skelltu Fjölni í Ljónagryfjunni í kvöld í síðustu umferð Subwaydeildar kvenna fyrir landsleikjahlé. Lokatölur voru 92-67. Framan af stefndi í flottan leik en Njarðvíkingar snögghitnuðu í lok annars leikhluta og héldu áfram fjörinu í þriðja sem gerði útslagið í kvöld. 

Besti leikmaður vallarins í kvöld var Aliyah Collier sem gerði 30 stig, tók 10 fráköst, gaf 6 stoðsendingar, stal 4 boltum og varði 3 skot. Fyrir þetta dagsverk var hún verðlaunuð með 41 framlagspunkti. Stigahæst hjá Fjölni var Taylor Jones með 31 stig og 16 fráköst. 

Liðin buðu upp á opinn og skemmtilegan fyrsta leikhluta og Njarðvík leiddi 24-21 að honum loknum. Taylor Jones dró vagninn fyrir Fjölni í upphafi með 12 stig og Collier með 10 hjá Njarðvík. 

Í öðrum leikhluta var áfram jafnt á með liðunum en þegar líða tók á settu þær Collier og Laneiro upp snarpa sýningu og Njarðvík skaust fram úr og leiddi 54-35 í hálfleik. Varnarleikur meistaranna varð einnig þéttari undir lok fyrri og Fjölnismenn sem stóluðu á skor frá Taylor fengu aðeins tvö stig frá henni í öðrum leikhluta.

Collier með 23 stig og 7 fráköst í hálfleik og Laneiro 14 stig og 6 stoðsendingar hjá Njarðvík en Taylor með 14 stig í liði Fjölnis og Simone 9. 

Í þriðja leikhluta hélst munurinn áfram um 20 stig og Njarðvíkingar komnir með alger yfirburðartök á leiknum og lokatölur því 92-67 eins og áður segir. 

Njarðvík fer því í landsleikjahlé í 4. sæti deildarinnar með 12 stig en Fjölnir í 6. sæti með 6 stig.

Fjölniskonur voru komnar með viðbót í starfshópinn hjá sér í kvöld en Jón Guðmundsson var aðstoðarþjálfari Kristjönu í kvöld hjá Fjölni. 

Tölfræði leiksins

Myndasafn / SBS

Fréttir
- Auglýsing -