14:41
{mosimage}
Cleveland jafnaði metin í úrslitaseríu Austurdeildarinnar með ótrúlegum sigri á Orlando í nótt. Cleveland byrjaði leikinn af miklum krafti og höfðu mest náð 23 stiga forskoti í fyrri hálfleik. Orlando menn gáfust þó ekki upp og náðu forskotinu smám saman niður. Rashard Lewis átti mjög góðan leik fyrir utan þriggja stiga línuna og þegar fjórði leikhluti var rúmlega hálfnaður höfðu gestirnir náð að jafna leikinn. Lokamínúturnar voru æsispennandi og tókst Hedo Turkoglu að koma Orlando tveimur stigum yfir þegar ein sekúnda var eftir af leiknum. Það dugði þó skamt því hver annar en Lebron James kláraði leikinn með ótrúlegri flautukörfu fyrir utan þriggja stiga línuna og Cleveland vann því leikinn með 1 stigi, 96-95.
“þetta er stærsta skot sem ég hef sett ofaní á mínum ferli” sagði Lebron James eftir leikinn. “ Fyrir mig er ein sekúnda langur tími, fyrir aðra getur það verið mjög stuttur tími. Þegar maður er lítill æfir maður þessi skot, í leikfimisalnum að telja niður, þetta eru skotin sem allir þekkja. Þú þarft ekki að vera í NBA til að þekkja þetta, það þekkja þetta allir. Að setja svona skot, á heimavelli, þegar leiktíminn rennur út, vá”.
Lebron James skoraði 35 stig í leiknum en næstir í liði Cleveland var Mo Williams með 19 stig og Delonte West með 12 stig. Hjá Orlando var Rashard Lewis stigahæstur með 23 stig en næstir voru Hedo Turkoglu með 21 stig og Courtney Lee með 11 stig.
Liðin hafa því unnið einn leik hvor þegar þau fara til Orlando og spila næstu tvo leikina þar.