20:42:53
Chicago Bulls hafa jafnað metin í rimmunni gegn meisturum Boston Celtics eftir sigur, 121-118, í tvíframlengdum leik sem verður lengi í minnum hafður.
Eftir jafnan leik var Chicago með góða stöðu undir lok venjulegs leiktíma, þremur stigum yfir, en stórskyttan Ray Allen dúkkaði upp óvaldaður fyrir utan þriggja stiga línuna og jafnaði leikinn þegar nokkrar sekúndur voru til leiksloka.
Í framlengingunni voru Boston með frumkvæðið framan af, en þegar leikurinn var að renna Chicago úr greipum fékk Ben Gordon boltann í erfiðri stöðu, en setti glæsilega þriggja stiga körfu sem tryggði aðra framlengingu. Í þeirri framlengingu voru Chicago skrefi á undan allan tímann, en Paul Pirece sá til þess að lokasekúndurnar voru rafmagnaðar því hann minnkaði muninn í eitt stig með þriggja stiga körfu. Það var hins vegar John Salmons sem kláraði leikinn fyrir Chicago með tveimur stigum af vítalínunni og var fögnuðurinn gífurlegur þegar síðasta sókn Boston rann út í sandinn.
Derrick Rose, nýkjörinn nýliði ársins, var stigahæstur Bulls með 23 stog, 11 stoðsendingar og 9 fráköst, og er ekki að sjá að þar fari tvítugur gutti, heldur ber hann sig svo sannarlega eins og reynslubolti. Ben Gordon bætti við 22 stigum, John Salmons 20 og Kirk Hinrich 18.
Hjá Boston var annar ungur leikstjórnandi í aðalhlutverki, en Rajon Rondo var með þrennu, 25 stig, 11 fráköst og 11 stoðsendingar. Stigahæstur var þó Paul Pierce með 29 stig og Ray Allen var með 28.
Síðustu þrír leikir einvígisins fara svo fram í Boston.
Tölfræði leiksins
ÞJ