spot_img
HomeFréttirChelsie Schweers spilar með nýliðum Stjörnunnar

Chelsie Schweers spilar með nýliðum Stjörnunnar

Körfuknattleiksdeild Stjörnunnar hefur gengið frá samkomulagi við Chelsie Schweers um að spila með kvennaliði Stjörnunnar í Domino's deild kvenna á komandi leiktíð. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá kkd. Stjörnunnar.

 

Chelsie er ekki ókunn Íslandi en hún lék með Hamri seinni hluta tímabils 2013-2014 við góðan orðstýr. Hún skoraði 30,6 stig; tók 8,9 fráköst; gaf 3,9 stoðsendingar og stal 2,2 boltum að meðaltali í leik á meðan hún lék fyrir Hamar. Hún skaut afburðavel frá þriggja stiga línunni með 48,6% nýtingu þaðan. 

 

Baldur Ingi Jónasson, þjálfari kvennaliðs Stjörnunnar var að vonum glaður með þessa viðbót í liðið. „Miðað við það sem við höfðum kynnt okkur er Chelsie afburða leikmaður sem einnig vakti athygli fyrir jákvætt hugarfar og góðan liðsanda þegar hún var hér á landinu síðast.  Það er yfirlýst stefna hjá okkur í Garðabænum að hafa gaman að hlutunum en á sama tíma að mæta af fullum þunga til leiks og keppa til sigurs í hverjum leik.  Að mínu mati er Chelsie frábær viðbót við þann kjarna sem fyrir er og falla vel að okkar áformum.“

 

Kkd. Stjörnunnar er enn með mörg járn í eldinum hvað varðar leikmannamál. „Sá hópur sem fyrir er hefur haft mikið fyrir að koma félaginu upp í efstu deild og getur ekki beðið eftir því að hefja leik í efstu deild.  Planið er að styrkja þann kjarna með einhverjum 2-3 leikmönnum og sú vinna er í gangi.  Næsti vetur verður spennandi í Garðabænum og það verður enginn svikinn af að taka þátt í því ævintýri."

 

Mynd:  Chelsie Schweers í leik gegn Keflavík þegar hún skoraði 54 stig. (Skúli Sig.)

Fréttir
- Auglýsing -