spot_img
HomeFréttirCeltics töpuðu gegn Orlando

Celtics töpuðu gegn Orlando

Boston Celtics eru í tómum vandræðum þessa dagana og töpuðu illa fyrir Orlando Magic í kvöld, en liðin eru að berjast um annað sætið í Austurdeild NBA á eftir LeBron James og félögum í Cleveland Cavaliers.
 
Celtics leiddu í hálfleik en Magic tóku magnaða rispu í þriðja leikhluta þar sem þeir skoruðu 19 stig í röð og sneru leiknum algerlega við og voru lokatölur 89-96.
Þó Boston hafi unnið þrjá leiki í röð fyrir þennan leik voru þeir allir á móti minni liðum og frammistaða þeirra gegn betri liðum hefur ekki verið til að hrópa húrra yfir. Þeir hafa tapað sjö gegn einum sigri gegn Orlando og Atlanta, sem er í fjórða sætinu, og þó þeir hafi vissulega unnið Cleveland í báðum viðureignum liðanna hingað til var það í upphafi leiktíðar þegar ekkert gekk upp hjá Cavs.
 
Það er komið að kaflaskiptum hjá Boston í lok þessarar leiktíðar þar sem Ray Allen verður samningslaus og er jafnvel leitt getum að því að honum verði skipt áður en glugganum lokar þann átjánda þessa mánaðar.
 
Hvernig sem fer verður fróðlegt að fylgjast með því hvort Doc Rivers nái að stoppa í götin og gera aðra atlögu að titli með þrenninguna innanborðs.
 
Annar leikur fór fram í kvöld þar sem Chris Bosh átti enn einn stórleikinn í sigri Toronto Raptors á Sacramento Kings, 115-104.

Mynd – Paul Pierce sneri aftur í lið Celtics eftir minniháttar meiðsli, en það dugði þeim ekki til í kvöld.

Fréttir
- Auglýsing -