spot_img
HomeFréttirCavs komnir í þægilega stöðu í úrslitunum

Cavs komnir í þægilega stöðu í úrslitunum

LeBron James og Cleveland Cavaliers virðast ekki ætla að slaka neitt á fyrr en sá stóri er í höfn í Cleveland borg. Strax frá upphafi leiks í þriðja leik Cavs og Warriors í úrslitum NBA deildarinnar voru LeBron James og lærisveinar hans harðeinbeittir í að vinna. 

 

Stöðugar árásir á körfuna og hávaði í húsinu sem hefði getað valdið heyrnarskemmdum kom Warriors í opna skjöldu. Þeir áttu engin svör.

 

James og félagar léku á alls oddi. Hvort sem það voru þristar um allan völl eða háloftatroðslur – allt fór að þeirra óskum. Cavs náðu um 20 stiga mun þegar Warriors fóru að bíta loks frá sér með sóknarleik sem er þeim að skapi og gerði þá að deildarmeisturum í vetur. Það var aðeins of lítið og allt of seint.

 

Cleveland Cavaliers sigldu sigrinum í höfn með öguðum leik á lokamínútunum og eru nú komnir með þægilega 1-2 stöðu með næsta leik einnig á heimavelli.

 

LeBron James var stórkostlegur að vanda með 40 stig, 12 fráköst og 8 stoðsendingar. Hann er með næstum þrennu að meðaltali í úrslitunum eða 41,0 stig; 12,0 fráköst og 8,3 stoðsendingar. Ótrúlegur leikmaður.

 

Stephen Curry leiddi sína menn með 27 stig en var allt of seinn í gang. Umtalað er að höfuðhögg hans í leik gegn Rockets í úrslitum vesturdeildarinnar sé valdur af því en það má samt ekki vanmeta varnarleik Matthew Dellavedova sem hefur verið frábær í þessari seríu.

 

David Blatt, nýráðinn þjálfari Cavs er að stýra þessu liði meistaralega með skiptingum og útdeilingu verkefna. Cavs hafa algerlega stýrt tempóinu í öllum leikjunum, haldandi Warriors í að meðaltali 89,7 í pace þegar liðið spilaði á 98,3 í deildinni.  Cavs hafa einnig haldið þessari skormaskínunni Golden State Warriors niðri í 97,3 stigum að meðaltali í seríunni, en liðið skoraði 110 stig að meðaltali í leik í deildinni í vetur.

 

Cavs eru í bílstjórasætinu en þurfa að líta reglulega í baksýnisspegilinn því ef eitthvað lið getur snúið þessari þróun við þá eru það Golden State Warriors.

 

 

Mynd: LeBron James er með þrennu að meðaltali í úrslitaseríunni. (AP)

Fréttir
- Auglýsing -