CAI Zaragoza lið Jón Arnórs Stefánssonar tekur nú í þessum rituðu orðum síðustu æfingu sína fyrir leik númer þrjú í einvígi sínum gegn stórliði Real Madrid. Karfan.is eru mættir á svæðið og vonandi að við fáum viðtal við okkar mann á eftir. Af æfingunni að sjá er þetta þessi týpíska æfing fyrir leik, farið yfir leikkerfi jafnt sín eigin og svo andstæðinga og er José Luis Abós þjálfari liðsins með afar fínan sandpappír á þessari æfingu að pússa leik liðsins fyrir átökin á morgun. En það er létt yfir liðinu og ekki annað að sjá en að þeir mæti einbeittir til leiks.
Einn af aðstoðarmönnum hans var hreinskilinn í léttu spjalli hér áðan og viðurkenndi að liðið yrði að eiga fullkominn leik á morgun, og gerði sér augljóslega grein fyrir styrknum sem fylgir liði Real Madrid. Zaragoza verða að vinna leikinn til að halda áfram þátttöku sinni í mótinu en með sigri Real þá eru Madrid-ingar komnir í úrslitaseríuna þar sem að þeir mæta að öllum líkindum Barcelona sem eru komnir í 2-0 í seríu sinni gegn Gran Canaria.