Það hafa allir gaman af því að sjá "buzzer" skot og hvað þá þegar skotið tryggir öðru liðinu sigur. Þeir snillingar hjá liði Kormáks frá Hvammstanga splæstu í eina slíka á sunnudag sl. þegar þeir sigruðu lið Patrek. Hér að neðan er smá leiklýsing og svo myndbandið af skotinu.
Kormákur og Patrekur áttust við í 3. deild karla í körfubolta á Hvammstanga á sunnudag. Var þetta fyrsti leikur liðanna á tímabilinu og bar leikurinn þess merki. Lítið stigaskor var framan af og bæði lið að reyna stilla leikmenn sína saman.
Eftir fyrsta leikhluta leiddu Patreksmenn, 8-13 og útlitið ekki gott fyrir heimamenn. Annar leikhlutinn var nokkuð svipaður og hálfleikstölur 18-31.
Í seinni hálfleik náðu Kormáksmenn að stoppa upp í götin og var varnarleikurinn byrjun á viðsnúningi liðsins í leiknum. Heimaliðið vann 3. leikhluta 11-9 og staðan eftir þrjá leikhluta 29-38. Lokafjórðungurinn var svo eign heimamanna, sem fóru ótt og títt á vítalínuna. Leikurinn var í járnum í lokin og komust Kormáksmenn í fyrsta skipti yfir í leiknum þegar um tvær mínútur voru eftir. Patrekur svaraði um hæl, en Kormákur nær að jafna. Leiknum lýkur svo með 3ja stiga flautukörfu og lokatölur því 51-48 fyrir heimamenn.
Stigahæstir í liði Kormáks:
Birkir Gunnlaugsson – 14
Ingibjörn Gunnarsson – 10
Guðmundur Loftsson – 10
Stigahæstir í liði Patreks:
Baldur Már Stefánsson – 21
Viðar Tulinius – 13