spot_img
HomeFréttirBúlgarar gjörsigraðir í lokaleik forkeppni Ólympíuleikanna

Búlgarar gjörsigraðir í lokaleik forkeppni Ólympíuleikanna

Ísland lagði Búlgaríu í dag í lokaleik sínum í forkeppni Ólympíuleikanna 2024, 76-93. Liðið vann því einn leik en tapaði tveimur í mótinu sem haldið var í Istanbúl í Tyrklandi.

Fyrir leik

Bæði lið höfðu tapað sínum leikjum gegn Úkraínu og Tyrklandi í mótinu fyrir leik dagsins og átti hvorugt þeirra því kost á að fara áfram í undanúrslit keppninnar. Þjálfarar Íslands höfðu þó haft á því orð að það væri ekki ákjósanlegt að fara heim án allavega eins sigurs í mótinu, þó svo að úrslitin í leiknum skiptu engu máli með niðurstöðu Íslands á mótinu.

Byrjunarlið Íslands

Elvar Már Friðriksson, Ægir Þór Steinarsson, Jón Axel Guðmundsson, Orri Gunnarsson og Tryggvi Snær Hlinason.

Gangur leiks

Íslenska liðið byrjar leikinn mun betur en Búlgaría. Eru snemma komnir með forystuna og eru 7 stigum yfir þegar fyrsti fjórðungur er hálfnaður, 8-15. Undir lok þess fyrsta lætur íslenska liðið kné fylgja kviði og eru komnir með þægilega 14 stiga forystu fyrir annan leikhlutann, 13-27. Mest fer Ísland með forystu sína í 21 stig undir lok fyrri hálfleiksins, en þegar liðin halda til búningsherbergja í hálfleik eru þeir 18 stigum yfir, 32-50.

Ísland hefur seinni hálfleikinn af miklum krafti og halda áfram að bæta við forystu sína. Lítið virðist ganga upp á sóknarhelmingi vallarins hjá Búlgaríu og nær íslenska liðið nánast að gera útum leikinn í þriðja fjórðung þar sem þeir eru 20 stigum yfir fyrir þann fjórða, 56-76. Ísland þurfti aðeins að hafa fyrir því að hleypa Búlgaríu ekki inn í leikinn í lokaleikhlutanum, en þeim ferst það ágætlega og standa að lokum uppi með góðan 17 stiga sigur, 76-93.

Atkvæðamestir

Bestur í liði Íslands í dag var Þórir Guðmundur Þorbjarnarson með 17 stig og 4 fráköst. Þá skiluðu Elvar Már Friðriksson 13 stigum, 3 fráköstum, Styrmir Snær Þrastarson 11 stigum, 2 fráköstum og Tryggvi Snær Hlinason 12 stigum og 8 fráköstum.

Kjarninn

Loksins í þessu móti var Ísland að skjóta boltanum ágætlega. Boltinn gekk vel hjá liðinu sóknarlega og að launum uppskáru þeir oftar en ekki góð skot sem þeir settu niður. Varnarlega var liðið einnig að gera ágætlega, sérstaklega í upphafi leiks þegar þeir eru að byggja upp forskot sitt, þar sem þeir gera Búlgaríu virkilega erfitt fyrir að koma boltanum í körfuna á hálfum velli.

Íslandi var í fyrsta skipti í sögunni boðið að taka þátt í þessari forkeppni Ólympíuleika vegna góðra úrslita sem liðið náði í síðustu undankeppni heimsmeistaramótsins. Leiðin á sjálfa leikana ansi löng og ströng, þar sem af þeim 8 liðum sem tóku þátt í mótinu í Tyrklandi, aðeins eitt gat unnið sér inn sæti í sjálfri undankeppninni. Í heild fá aðeins 12 þjóðir heimsins að taka þátt á Ólympíuleikum af þeim 213 sem skráðar eru hjá FIBA með landslið, en á síðustu leikum sem fram fóru 2020 í Tókýó tóku þátt Argentína, Ástralía, Tékkland, Frakkland, Þýskaland, Íran, Ítalía, Japan, Nígería, Slóvenía, Spánn og Bandaríkin.

Hvað svo?

Næst á dagskrá hjá liðinu er undankeppni EuroBasket 2025. Dregið var í riðla á dögunum í þeirra keppni og fékk Ísland lið Tyrklands, Ungverjalands og Ítalíu sem mótherja. Til þess að komast á lokamótið þarf Ísland að vera í einu af þrem efstu sætum riðilsins, en leikið verður í þremur gluggum, febrúar og nóvember 2024 og febrúar 2025.

Tölfræði leiks

Umfjöllun Körfunnar um íslensku landsliðin er kostuð af Lykil

Fréttir
- Auglýsing -