Þær fregnir bárust úr Skagafirði fyrr í dag að Brynjar Þór Björnsson, sem leikið hefur með Tindastóli í Domino’s deild karla í vetur, hafi óskað eftir að fá sig lausan frá samningi sínum við félagið af persónulegum ástæðum. Frá þessu er greint á vefsíðunni feykir.is.
Brynjar, sem gekk til liðs við Tindastól eftir afar farsælan feril hjá KR, og var einn af lykilmönnum liðsins með 15 stig að meðaltali í leik. Þá setti hann Íslandsmet yfir þriggja stiga körfur skoraðar í einum leik þegar hann setti 16 stykki í leik gegn Breiðabliki fyrr í vetur. Tímabilinu lauk hins vegar hjá Tindastóli þegar liðið lá gegn Þór Þorlákshöfn í ótrúlegum oddaleik í 8-liða úrslitum deildarinnar.
Líkt og áður sagði hefur Brynjar ákveðið að söðla um af persónulegum ástæðum en spennandi verður að sjá hvar þessi gríðarlegi sigurvegari leikur körfubolta næsta vetur.