spot_img
HomeFréttirBrynjar og Hreggviður vöktu KR til lífsins (Umfjöllun)

Brynjar og Hreggviður vöktu KR til lífsins (Umfjöllun)

KR skellti Tindastól í DHL-Höllinni í kvöld þegar liðin mættust í áttundu umferð Iceland Express deildar karla. Tindastólsmenn fengu góðar 20 mínútur í leiknum og leiddu 37-42 í hálfleik en lengra komust þeir ekki, sprungu á limminu og Vesturbæingar fóru hreinlega á kostum í síðari hálfleik. Brynjar Þór Björnsson var stigahæstur í liði KR í kvöld með 24 stig en kappinn setti niður 5 af 6 þristum sínum í leiknum. Sean Cunningham gerði svo 20 stig og tók 8 fráköst í liði Tindastóls.
Hreggviður Magnússon var kominn í byrjunarlið KR í kvöld og Finnur Atli Magnússon var því á bekknum en það hefði ekki nokkru máli skipt hverjir skipuðu þetta byrjunarlið KR í kvöld því allir röndóttir sem einn voru ekki mættir til að spila körfubolta! Gestirnir byrjuðu 0-4 og vörðust vel þar sem KR hentu boltanum oftsinnis klaufalega frá sér á upphafsmínútunum. Galdramaðurinn Pavel Ermolinskij lét miðherja Tindastóls, Dragoljub Kitanovic, meira að segja ,,strippa” sig uppi á velli og skora tvö góð stig úr hraðaupphlaupinu fyrir Stólana, eitthvað sem fáum ef nokkrum bakvörðum deildarinnar hefur tekist þetta tímabilið.
 
Sean Cunningham sleppti svo einum stórum yfir KR-inga og breytti stöðunni í 9-20. Finnur Magnússon náði þó að klóra í bakkann fyrir KR og skoraði flautukörfu í teignum og staðan því 11-24 Tindastól í vil sem áttu magnaðan upphafsleikhluta.
 
Heimamenn í KR voru öllu líflegri í öðrum leikhluta, byrjuðu 4-0 þar sem Marcus Walker var eini maður liðsins sem virtist mættur í hús. Kitanovic var áfram magnaður á báðum endum vallarins fyrir Stólana og náði inn þriðju villunni á Fannar Ólafsson þegar um fimm mínútur voru liðnar af öðrum leikhluta.
 
Pavel Ermolinskij gerði loks sín fyrstu stig er hann setti niður eitt víti og minnkaði muninn í 22-32. Með Pavel aðeins líflegri smitaðist það út í allt KR liðið og Hreggviður Magnússon splæsti í níu KR stig í röð og minnkaði muninn í 31-36. Þegar fimm sekúndur voru til hálfleiks fékk Dragoljub dýra villu í liði Stólanna en það var hans þriðja villa, KR fór á línuna og minnkaði muninn í 37-40.
 
Friðrik Hreinsson kann vel við sig þegar lítið er eftir á klukkunni. Stólarnir tóku innkast, KR spilaði vörnina hátt uppi en einkaþjálfarinn og lögreglumaðurinn Friðrik óð í gegnum hvern röndóttan á fætur öðrum og komst yfir og upp í sniðskot á tæpum fimm sekúndum og lagði flautukörfuna í spjaldið og ofaní, staðan 37-42 fyrir Tindastól í leikhléi en KR vann leikhlutann 26-18.
 
Hreggviður Magnússon var með 12 stig hjá KR í hálfleik og 3 fráköst en Dragoljub Kitanovic var með 12 stig hjá Stólunum og 6 fráköst.
 
Heimamenn í KR voru ekki lengi að komast í bílstjórasætið í síðari hálfleik, Brynjar Þór Björnsson hrökk í gang og smellti niður fjórum þristum í jafn mörgum tilraunum, vörn KR var allt önnur á meðan gestirnir komu fáránlegir út í seinni hálfleikinn. Til að byrja með gekk allt út á að láta Fain og Cunningham reyna einhver sólóverkefni sem KR át í morgunmat, vörn gestanna var hlægileg og í raun var þetta allt annað lið frá fyrri hálfleiknum.
 
Vesturbæingum var ekki til setunnar boðið og hreinlega rúlluðu yfir Tindastól í þriðja leikhluta. Helgi Rafn Viggósson fékk sína fjórðu villu í þriðja leikhluta og gestirnir voru komnir í töluverð villuvandræði sem reyndist dýrt því þeir leika á fáum mönnum.
 
Svo fór að KR pakkaði saman þriðja leikhluta 37-16 og staðan því 74-58 fyrir heimamenn þegar lokaspretturinn var eftir. Hann varð aldrei spennandi því KR sýndi sitt rétta andlit á meðan Tindastóll hélt að leikurinn ynnist á 20 mínútum.
 
Í fjórða leikhluta þurfti ekki að bíða lengi eftir því að leikmenn sem alla jafna verma bekkinn fengju að sýna hvað í þeim býr. Einar Bjarni Einarsson sýndi þá fínar rispur fyrir Stólana sem og Matthías Orri Sigurðarson í liði KR. Lokatölur urðu svo 107-88 KR í vil og komu þeir Stólunum kyrfilega niður á jörðina eftir tvo góða sigra norðanmanna í leikjunum þar á undan.
 
Heildarskor:
 
KR: Brynjar Þór Björnsson 24, Hreggviður Magnússon 22/5 fráköst, Marcus Walker 17, Ólafur Már Ægisson 13, Finnur Atli Magnússon 9/5 fráköst, Pavel Ermolinskij 9/15 fráköst/12 stoðsendingar, Matthías Orri Sigurðarson 6, Fannar Ólafsson 3/4 fráköst, Jón Orri Kristjánsson 2, Martin Hermannsson 2, Skarphéðinn Freyr Ingason 0, Ágúst Angantýsson 0.
 
Tindastóll: Sean Kingsley Cunningham 20/8 fráköst/5 stoðsendingar, Dragoljub Kitanovic 16/8 fráköst/7 stolnir, Friðrik Hreinsson 12, Helgi Rafn Viggósson 8/4 fráköst, Helgi Freyr Margeirsson 7, Hayward Fain 7/5 fráköst, Einar Bjarni Einarsson 6, Hreinn Gunnar Birgisson 5, Þorbergur Ólafsson 3, Halldór Halldórsson 2, Guðmundur Jóhann Guðmundsson 2, Pálmi Geir Jónsson 0.
 
Dómarar: Georg Andersen, Jóhann Gunnar Guðmundsson
 
 
Umfjöllun og myndasafn: Jón Björn Ólafsson – [email protected]  
Fréttir
- Auglýsing -