spot_img
HomeFréttirBrynjar gerði gæfumuninn

Brynjar gerði gæfumuninn

Nokkrum leikjum sem áttu að fara fram í kvöld var frestað vegna veðurs en það stoppaði ekki liðið sem þurfti að leggja á sig lengsta ferðalagið. Egilsstaðarliðið Höttur var mætt í Vesturbæinn þar sem þeir þeir spiluðu við Íslandsmeistara KR. KR í öðru sæti deildarinnar en Höttur í því neðsta og útlitið ansi dökkt. Fyrirfram var því búist við mjög öruggum sigri heimamanna en Hattarmenn mættu ákveðnir til leiks og úr varð hörku fínn leikur.

 

Gestirnir mættu gjörsamlega uppveðraðir úr óveðrinu og komust strax í 0-6. Varnarleikur KR var verulega ólíkur því sem hefur sést í vetur auk þess sem opin skot geiguðu ítrekað. Höttur hélt uppteknum hætti og komst í 8-15 eftir fimmtán mínútur og var sóknarleikur þeirra til hreinnar fyrirmyndar.

 

Höttur fór með eins stigs forystu í annan leikhlutann og leikplan þeirra virtist ganga fullkomlega. KR komst í forystu í fyrsta skipti í  byrjun annars leikhluta en Höttur svaraði með sex stigum í röð, algjörlega staðráðnir í að gefa forystuna ekki auðveldlega.

 

Sóknarleikur KR var verulega slakur þar sem þeir ætluðu að gera hlutina of einfalda og leyfðu v0rn Hattar að ýta þeim í erfiða hluti. Það skal ekki tekið af Hetti að þeir spiluðu frábærlega í fyrri hálfleik, stjórnuðu leiknum fullkomlega og fóru verðskuldað með fjögurra stiga forystu í hálfleikinn.

 

Heimamann voru með níu tapaða bolta gegn fjórum hjá Hetti og má segja með sanni að það hafi gert gæfumuninn. KR var í fyrsta gír, hittu illa og voru andlega fjarverandi. Þeir þurftu að bæta leik sinn verulega í seinni hálfleik ef ekki ætti illa að fara.

 

Það var akkurat það sem gerðist, KR mætti með fyrstu níu stig hálfleiksins. Spiluðu aggresíva pressuvörn sem Höttur réð ekkert við. Brynjar Þór snarhitnaði í þriðja leikhluta og setti fjórar þriggja stiga körfur í andlit Egilsstaðabúa. Hattar menn sýndu karakter framan af leikhluta með því að svara áhlaupum KR.

 

Eitthvað varð þó undan að láta og sóknarleikur KR datt heldur betur í gang, Craion varð meira en áhorfandi í leiknum og öll skot virtust rata ofan í. KR var með 35 stig í þriðja leikhluta en Hattarmenn sýndu nokkra seiglu að halda muninum í kringum tíu stig en sjö tapaðir boltar í leikhlutanum gerðu þeim erfitt fyrir.

 

Þrettán stiga forysta KR var ekki þyrnir í augum Hattar því liðið mætti ákveðið í lokafjórðunginn. Þeir náðu níu stiga áhlaupi og spenna í kortunum. Mirko Stefán sem var frábær í fyrri hálfleik en var ekki með stig í þeim seinni fór útaf með fimm villur þegar fjórar mínútur voru eftir, róður Hattar varð klárlega þyngri við það.

 

KR tókst að sigla sigrinum heim að lokum en Höttur gafst aldrei upp og fá fyrir það stórt hrós. Lokatölur 87-78 KR í vil og sigurgangan heldur áfram.

Tobin Carberry var atkvæðamestur í liði gestanna með 33 stig og 11 fráköst, einnig áti Hreinn Gunnar Birgisson fínan leik með 13 stig, 6 fráköst og 5 stoðsendingar. Lið Hattar gafst aldrei upp og geta gengið burt með beint bak frá þessum leik.

 

Hjá KR var Brynjar Þór Björnsson stigahæstur með 24 stig, þar af 6 þriggja stiga körfur og 67% nýtingu. Auk þess var það Brynjar sem reif upp stemmninguna hjá liðinu og kom þeim yfir. Auk þess skilaði Craion 21 stigi en var alveg horfinn í fyrri hálfleik.

 

KR er sem fyrr í öðru sæti og bíða átekta eftir að Keflavík tapi stigum. Frammistaða liðsins í kvöld var samt sem áður ekki sannfærandi en eins og svo oft áður hafðist sigur að lokum. Tap þetta er fjórði leikurinn í röð þar sem ósigurinn er með 10 stigum eða minna og virðist það ætla að vera saga tímabilsins hjá Egilsstaðapeyjum.

 

Viðtöl eftir leik

Tölfræði leiksins

 

Umfjöllun / Ólafur Þór Jónsson – @Olithorj

Fréttir
- Auglýsing -