Framherjinn Bryndís Guðmundsdóttir hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna. Staðfestir leikmaðurinn þetta í samtali við Körfuna fyrr í dag.
Bryndís var leikmaður uppeldisfélags síns í Keflavík á síðasta tímabili, þar sem hún skilaði 10 stigum, 7 fráköstum og 3 stoðsendingum að meðaltali í 36 leikjum fyrir félagið. Keflavík endaði í öðru sæti deildarkeppninnar og lék til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn gegn Val.
Ástæðu þess að hún leggji skóna á hilluna nú segir Bryndís vera þá að nú sé hún einfaldlega búin að fá nóg. Hnéið á henni líti ekki vel út að innan og að hún ætli sér að hugsa aðeins lengra en bara um körfuboltaferilinn. Segir hún að læknar hafi gefið sér 5-15 ár eftir að hún sleit krossband árið 2007 og að hún fari því sátt frá borði með þann tíma sem hún hafi náð að spila bæði í deild og með landsliði.
Bryndís er uppalin í Keflavík og ferill hennar í efstu deild spanar 14 ár. Það var 7. febrúar 2004 sem að Bryndís tók sinn fyrsta stóra titil þegar Keflavík sigraði KR í Doritos Bikarnum og sama árið tók Keflavík einnig Íslandsmeistaratitilinn. Í heildina varð Bryndís 6 sinnum Íslandsmeistari og 4 sinnum bikarmeistari á sínum ferli.
Karfan vill nota tækifærið og þakka Bryndísi fyrir ómælda ánægju í gegnum árin, hrósa henni fyrir frábæran feril og óska henni velfarnaðar í því sem að hún tekur sér fyrir hendur í framtíðinni.