Fjölnir og Haukar mætast kl. 16:45 í dag í úrslitum VÍS bikarkeppninnar.
Í undanúrslitum vann Fjölnir lið Njarðvíkur á meðan að Haukar báru sigurorð af Val.
Skallagrímur er ríkjandi bikarmeistari, þær unnu Geysisbikarinn árið 2020, en keppnin hefur síðan skipt um nafn og nú er leikið um VÍS bikarinn.
Karfan setti sig í samband við Bryndísi Gunnlaugsdóttur, aðstoðarþjálfara Grindavíkur og spurði hann út í leik dagsins.
Hverju má búast við í úrslitaleiknum?
Þessi úrslitaleikur verður ólíkur úrslitaleikjum sem við erum vön sem spilaðir eru í febrúar og liðin að nálgast sitt besta form. Núna verður mikill haustbragur á liðunum sem hefur sést í síðustu leikjum. Það má því búast við ansi mikið af töpuðum boltum og lélegum ákvörðunum.
En leikurinn verður þrátt fyrir það skemmtilegur enda eru tvö lið mætt í úrslitaleik til að keppa um bikar og eins og Helena nefndi í viðtali þá vill allt íþróttafólk taka bikarinn með sér heim eftir leik. Fjölnir mun reyna að keyra upp hraðann en á sama tíma hentar það líklega Haukum betur að hafa hann hægari og ná að stilla upp sínum sóknum. Það verður einnig gaman að fylgjast með miðherjum beggja liða en Haukar er með her hávaxinna og sterkra kvenna sem munum mæta Dagnýju sem er leikmaður sem ég hvet körfuboltafólk til að fylgjast með í vetur.
Hvernig fer hann?
Ég held að liðið sem vinnur þennan leik er liðið sem nær að stjórna tempóinu. Ef Fjölnir nær að keyra upp hraðann þá taka þær bikarinn en ef Haukar ná að stoppa hraðaupphlaup Fjölnis þá sigra Haukar.
Ég ætla að spá því að Fjölnir skrifi liðið í sögubækurnar og vinni bikarinn og koma þá með fyrsta alvöru titilinn í Grafarvoginn.