Bryndís Guðmundsdóttir miðherji kvennaliðs Keflavíkur mun ekki koma til með að leika með liðinu í það minnsta fyrir áramót á komandi tímabili. Bryndís hyggur á heimsreisu með unnusta sínum og mun sú ferð standa til jóla. Óhætt er að segja að þetta sé blóðtaka hjá Keflavík þar sem að Bryndís hrifsaði til sín tæp 10 fráköst á leik á síðasta tímabili og setti niður 16 stig að meðaltali í þeim 29 leikjum sem hún spilaði. “Ég er búin að vera í körfuboltanum frá því ég man eftir mér og mig langar bara aðeins að upplifa eitthvað nýtt. Tækifærið gafst núna og ég stökk á það. Svo þarf bara að koma í ljós hvað ég geri þegar ég kem heim. Ég veit svo sem ekkert hvað ég geri þá.” sagði Bryndís í snörpu viðtali við Karfan.is
Þrátt fyrir þennan missir þá hafa Keflavíkurstúlkur hinsvegar fengið til sín ansi sterkan leikmann í Marín Laufey Davíðsdóttir sem lék með Hamri síðasta vetur og reif niður 11 fráköst og skoraði 12 stig á leik og þó hún búi ekki yfir þeirri reynslu sem Bryndís hefur ætti hún hugsanlega að einhverju leyti fylla þau spor sem Bryndís skilur eftir sig.