Joshua Brown hefur vakið verðskuldaða athygli í fyrstu tveimur leikjunum sínum fyrir KR. Í fyrsta deildarleiknum stýrði hann KR til sigurs gegn Haukum og í gærkvöldi fór hann mikinn þegar KR sló Grindavík út úr 16-liða úrslitum Poweradebikarsins. Karfan.is ræddi við Brown eftir leik en hann sagði að útlitið á KR liðinu um þessar mundir væri eins og liðið hefði verið saman allt tímabilið.
,,Við þurftum á þessum sigri að halda, Hrafn þjálfari undirbjó okkur vel fyrir þennan leik og við erum ánægðir með sigurinn og förum nú strax að hugsa um næsta leik,“ sagði Brown vígreifur í leikslok.
KR beitti svæðisvörn langstærstan hluta leiksins og það leggst illa í Grindvíkinga þessi dægrin. ,,Ég var ekki hér fyrir áramót en Hrafn vildi hægja á Grindavík og því fórum við í 2-3 svæði svo það var alltaf partur af planinu okkar fyrir leikinn.“
Hvernig hefur gengið að innleiða þrjá nýja leikmenn í hópinn?
,,Liðsfélagarnir eru frábærir og það lítur út eins og þetta lið hafi verið saman allt tímabilið svo það var í raun ekki erfitt fyrir okkur nýju mennina að aðlagast hlutunum hér,“ sagði Brown en aðspurður hvort hann fyndi fyrir pressu við að klæðast KR búningnum þar sem röndóttir eiga tvo stærstu titlana að verja sagði Brown:
,,Nei, ég finn ekki fyrir neinni pressu en ég lít á hvern leik sem stórleik og spila því af öllum mínum krafti.“
Brown kom til landsins frá Rúmeníu og kvað það hafa verið heillaspor að skipta um umhverfi. ,,Ég vil vinna allt hérlendis og ef það leiðir til þess að maður komist að í stærri deild þá er ákveðnu markmiði náð enda stefna allir leikmenn að svoleiðis markmiðum,“ sagði Brown en á hann sér óskaandstæðinga í 8-liða úrslitum?
,,Ég þekki engin lið hérna ennþá svo það skiptir mig ekki miklu máli og liðin því öll eins í mínum augum.“
Mynd/ [email protected]