spot_img
HomeFréttirBroussard fór á kostum þegar Grindavík nældi sér í oddaleik

Broussard fór á kostum þegar Grindavík nældi sér í oddaleik

Grindvíkingar tryggðu sér í kvöld oddaleik í úrslitum Domino´s deildar karla með 82-88 sigri á Stjörnunni í Ásgarði. Aaron Broussard fór á kostum í liði Girndavíkur með 37 stig en Justin Shouse gerði 26 stig í liði Stjörnunnar. Hér að neðan fer textalýsing úr fjórðu viðureign Stjörnunnar og Grindavíkur í Domino´s deild karla. 
 
Stjarnan-Grindavík 82-88 (19-24, 18-27, 20-18, 25-19)
 
Stjarnan: Justin Shouse 26/4 fráköst/7 stoðsendingar, Jarrid Frye 17/8 fráköst, Jovan Zdravevski 13, Marvin Valdimarsson 10/10 fráköst, Brian Mills 9/10 fráköst/3 varin skot, Fannar Freyr Helgason 5, Dagur Kár Jónsson 2, Daði Lár Jónsson 0, Sæmundur Valdimarsson 0, Magnús Bjarki Guðmundsson 0, Kjartan Atli Kjartansson 0, Tómas Þórður Hilmarsson 0.
 
Grindavík: Aaron Broussard 37/12 fráköst, Samuel Zeglinski 15/4 fráköst/6 stoðsendingar, Jóhann Árni Ólafsson 13/3 varin skot, Þorleifur Ólafsson 8, Sigurður Gunnar Þorsteinsson 7/9 fráköst, Davíð Ingi Bustion 6/13 fráköst, Ólafur Ólafsson 2, Daníel G. Guðmundsson 0, Jón Axel Guðmundsson 0, Jens Valgeir Óskarsson 0, Björn Steinar Brynjólfsson 0, Ryan Pettinella 0.
 
 ______________________________________________________________________________________________________________
 
4. leikhluti
 
LOKATÖLUR 82-88
 
– Þristur hjá Stjörnunni vildi ekki niður, erfitt skot sem Marvin reyndi, Grindvíkingar tóku frákastið þegar 2,2 sek voru eftir og brotið á Zeglinski sem klárar hér leikinn 82-88 og það verður oddaleikur! 
 
– 82-87 Zeglinski með eitt víti og 17,4 sek eftir.
 
– 82 – 86 Shouse brunar upp, skorar og fær villu að auki. Setur vítið og 19,2 sek eftir.
 
– 79-86 Zeglinski setur eitt víti.
 
– 26 sek eftir og Stjörnumenn missa boltann í sókninni og brjóta á Zeglinski.
 
– 79-85 Jóhann Árni með tvö víti fyrir Grindavík…bæði lið löngu komin með skotrétt og hver villa sendir menn núna á línuna
 
– 79-83 Shouse með tvö víti og 44 sek eftir…
 
– 49 sek eftir og þrír þristar hjá Stjörnunni sem vildu ekki niður, Grindvíkingar náðu loks varnarfrákastinu og Stjarnan braut á Jóhanni Árna. Jóhann brenndi af fyrra vítinu en setti það síðara og staðan 77-83 fyrir Grindavík og Stjarnan tekur leikhlé.
 
– 1.21 mín eftir og gestirnir henda frá sér boltanum.
 
– Ruðningur dæmdur á Broussard en Fannar Helgason gerði þarna vel í vörninni. 77-82 Shouse að minnka muninn í fimm stig…eru Garðbæingar komnir með blóðbragðið? 1.25mín eftir.
 
– 75-82 Jovan með Stjörnuþrist og 2.20 mín eftir.
 
– 72-81 Dagur Kár með tvö víti fyrir Stjörnuna.
 
– 69-81 Broussard skorar eftir enn eitt sóknarfrákastið…það eru sóknarfráköst Grindavíkur sem eru að skilja liðin hér að. Bustion og Broussard búnir að vera drjúgir í þeim verkefnum hjá gulum. 3.29mín eftir af leiknum.
 
– Þeir týnast hér útaf einn af öðrum, Frye að fá sína fimmtu villu fyrir brot á Davíð Inga og Frye heldur á bekkinn. Davíð setur eitt á línunni og kemur Grindavík í 69-79.
 
– Enn 68-78 og 4.36mín eftir… Sigurður Gunnar fær sína fimmtu villu í liði Grindavíkur og heldur á bekkinn. Inn í hans stað kemur Davíð Ingi Bustion sem fór hamförum í þriðja leikhluta og verður forvitnilegt að sjá hvort stráksi sé enn í stuði. 
 
– 68-78 Justin Shouse með lífsnauðsynlegan þrist fyrir Stjörnuna.
 
– Og fimmta villan komin á Mills og hann heldur á tréverkið. Sigurður Gunnar setur bæði Grindavíkurvítin og staðan orðin 63-78 og Grindvíkingar staddir í miðju 9-0 áhlupi.
 
– 63-76…Broussard með sóknarfrákast og skorar…enn eitt sóknarfrákastið hjá Grindvíkingum og Broussard kominn í 35 stig þegar enn eru 7 mínútur eftir af leiknum. Mögnuð frammistaða hjá kappanum. Munurinn 13 stig og nú þarf Teitur að kokka upp einhverja bragðgóða fléttu fyrir sína menn.
 
– Brian Mills að fá hérna sína fjórðu villu í liði Stjörnunnar, hjá Grindvíkingum eru Jóhann Árni og Sigurður Gunnar báðir með fjórar villur sem og Ólafur Ólafsson. Fjórir leikmenn því hér á síðasta séns.
 
– Leikhlé í gangi…staðan 63-69 fyrir Grindavík. Lætin eru að ná hámarki hér í húsinu, heyrist vart mælt mál…er Silfurskeiðin að syngja sína menn upp að hlið Grindavíkur? Halda Grindvíkingar út og ná að tryggja sér oddaleik? Stórar spurningar og við fáum svar við þeim eftir 8 mínútur og 17 sekúndur.
 
– Miður góð byrjun á fjórða hjá Grindavík, Stjörnumenn eru að taka fimm víti í röð! Brotið á Jovan í þrist og svo dæmt tæknivíti á gestina….heimamenn setja niður fjögur af fimm vítaskotum og minnka muninn í 61-69 og eiga boltann aftur. Afleikur hjá gestunum hér í upphafi fjórða.
 
– Fjórði leikhluti er hafinn…
_______________________________________________________________________________________________________________
 
(Broussard gerir tvö síðustu stigin í þriðja leikhluta fyrir Grindavík)
 
3. leikhluti (57-69)
 
– Þriðja leikhluta lokið og staðan 57-69 fyrir Grindavík. Stjörnumenn reyndu þrist undir lok leikhlutans en Grindvíkingar náðu frákastinu og brunuðu fram, Aaron Broussard skundaði fram og skoraði af öryggi og gestirnir leiða því með 12 stiga mun fyrir fjórða og síðasta leikhluta.
 
– 57-67 og mínúta eftir af  þriðja.
 
– 55-65 og 1.50mín eftir af þriðja…heimamenn í Stjörnunni að bíta aðeins frá sér en hafa farið fremur óvarlega með boltann þennan þriðja leikhluta.
 
– 50-65 og 3.15mín eftir af þriðja og Zeglinski að smella niður þrist fyrir Grindavík hér lengst neðan úr bæ…Stjörnumönnum gengur ekkert að naga niður forskot gestanna. Tókst að koma muninum undir tíu stigin í smá stund en Grindvíkingar slíta sig jafnharða frá þeim aftur.
 
– 48-61 og Grindvíkingar fengu vítamínssprautu í innkomu Davíðs Inga sem hefur barist eins og brjálaður maður síðan hann kom inn fyrir Sigurð Þorsteinsson. 
 
– 46-55 Broussard með sóknarfrákast, blakar boltanum ofan í og fær villu að auki en brennir af vítinu, menn eru greinilega ekkert að þakka fyrir sig í kvöld þegar „three point play“ eru í boði. Staðan 46-57 núna fyrir Grindavík sem taka hér hvert sóknarfrákastið á færtur öðru.
 
– 6.45mín eftir af þriðja og Sigurður G. Þorsteinsson að fá sína fjórðu villu í Grindavíkurliðinu, villuvandræðin hafa verið að elta miðherjann og hann á bara eina til að gefa í viðbót þessar rúmu 15 mínútur sem eftir eru af leiknum. Inn í Sigurðar stað kom Davíð Ingi Bustion. 
 
– 45-54 Frye með gegnumbrot og heimamenn búnir að koma muninum undir tíu stigin. Fannar Helgason er í pústrum úti um allan völl og í tvígang búinn að eiga hjartfólgnar samræður hér við dómara leiksins.
 
– 41-54 Marvin skorar fyrir Stjörnuna í harðaupphlaupi og brotið á honum um leið. Hann brennir af vítinu, þetta þykir nú víst ekki rétti tíminn til þess. Rétt rúmar tvær mínútur liðnar af síðari hálfleik.
 
– 37-54… Zeglinski opnar síðari hálfleik með þriggja stiga körfu.
 
– Þriðji leikhluti er hafinn…
 
________________________________________________________________________________________________________________
 
Stjörnumenn áttu ekki svo glatt með að koma frá sér skoti í fyrri hálfleik, Grindvíkingar vörðu níu skot í fyrri hálfleik!
 
Það er smá böggur í nettengingunni hér í Ásgarði…við dettum út og inn, þið fyrirgefið okkur það en við „loggum“ þetta allt hjá okkur og færum inn þegar alnetið þýðist okkur.
 
Skotnýting liðanna í hálfleik
Stjarnan: Tveggja 40% – þriggja 35,7% og víti 75%
Grindavík: Tveggja 59,3% – þriggja 46,2% og víti 100%
 
(Grindvíkingar voru eins og gefur að skilja hæstánægðir með fyrri hálfleik hjá sínum mönnum)
 
2. leikhluti
 
– Hálfleikur: 37-51 fyrir Grindavík þar sem Broussard er búinn að vera stórkostlegur í liði Grindavíkur og kominn með 23 stig og 6 fráköst. Hjá Stjörnunni er Frye með 11 stig í hálfleik. Heimamenn í Garðabæ aðeins komnir með fimm villur á 20 mínútum og mega vel við því að herða vörnina. Grindvíkingar með fráköstin þennan fyrri hálfleik, 16-24 og þar af liggja 9 sóknarfráköst hjá Grindvíkingum.
 
– 37-51 Jóhann Árni með annan þrist og Stjarnan tapar boltanum í næstu sókn… 28,5 sek til hálfleiks.
 
– 34-48 Jóhann Árni með gulan þrist og gerir sín fyrstu stig í leiknum, það rignir yfir heimamenn en Justin Shouse svarar þó í sömu mynt og 37-48. 1.04mín til hálfleiks. Stjörnuvörnin verður að herða róðurinn því sjálfstraustið í röðum gestanna er í hámarki.
 
– 31-45 Broussard með Grindavíkurþrist…maðurinn er gersamlega óstöðvandi hérna og kominn með 23 stig! Stjörnumenn eiga ekkert svar við honum. Þvílík og önnur eins frammistaða hjá Broussard!
 
– 31-42 Jæja smá ljóstýra hjá Stjörnunni, Frye var enda við að smella niður þrist. 
 
– 26-40 Ólafur Ólafsson með teigskot við endalínuna fyrir Grindavík og munurinn orðinn 14 stig…heimamenn í Garðabæ aðeins búnir að gera sjö stig á sex mínútum hér í öðrum leikhluta og sóknarleikur þeirra ráðalaus gegn þéttum varnarleik gestanna. Þá mega heimamenn herða vörnina, aðeins búið að dæma á þá eina villu á tæpum 17 mínútum!
 
– Vörn Grindavíkur er ekkert slor um þessar mundir, liðið var enda við að verja sitt áttunda skot í leiknum núna þegar Zeglinski slæddi fingri í þriggja stiga skot hjá Justin Shouse.
 
– 26-35 Broussard með þrist og Garðbæingar í bullandi vandræðum með kappann…og annan til! Broussard stendur hér í ljósum logum og staðan orðin 26-38 fyrir Grindavík. Stjörnumenn taka leikhlé og ekki seinna vænna. 5.15mín til hálfleiks. 
 
– 24-30 Broussard skorar af harðfylgi og er kominn með 12 stig hjá gestunum…hann ætlar sér ekkert annað en oddaleik og hefur spilað af miklum krafti í kvöld.
 
– 24-26 Jovan með Stjörnuþrist, skellti sér bara út fyrir þriggja stiga línuna eftir að hafa verið „blokkaður“ í tvígang í teignum í fyrsta leikhluta.
 
– Annar leikhluti hafinn og Grindvíkingar gera fyrstu stig hans og staðan orðin 19-26.
 
(Hart var barist í fyrsta leikhluta)
 
1. leikhluti (19-24)
 
– 19-24…Aaron Broussard gerði síðustu stig leikhlutans fyrir Grindavík. Gestirnir lokuðu leikhlutanum með 3-11 spretti. Gulir eru einnig grimmari í fráköstunum þennan fyrsta leikhluta, 6-14 er staðan í þeim efnum og sóknarfráköst gestanna alls 6!
 
– 30 sek eftir af fyrsta og Justin setur eitt víti af tveimur og minnkar muninn í 19-22…
 
– 18-22…Grindvíkingar á 2-9 „runni“ og 1.55mín eftir af fyrsta leikhluta. Sammy með þrist fyrir gula sem kynti bál og gestirnir líflegir núna.
 
– 16-13 og 4.15mín eftir af fyrsta og Jovan kemur inn fyrir Fannar í liði Stjörnunnar, flottar upphafsmínútur hjá Fannari.
 
– 16-11 og 5.30mín eftir af fyrsta leikhluta, Stjörnumenn svona beittari fyrstu fimm mínútur leiksins. 
 
– 12-6 Mills með Stjörnuþrist og stóru strákarnir í Garðabæ eru að setj´ann fyrir utan hér á upphafsmínútunum. 
 
– 7-4 Fannar með teigkörfu og er að finna sig vel hér á upphafsmínútunum í liði Stjörnunnar. 
 
– 3-0 Fannar Freyr Helgason opnar leikinn fyrir heimamenn með þrist en Þorleifur svarar með teigkörfu strax í næstu sókn fyrir gestina og 3-2.
 
– Leikur hafinn og heimamenn í Stjörnunni vinna uppkastið…
 
– Tvær mínútur í leik
_______________________________________________________________________________________________________________
 
Hér var kynningu á heimamönnum í Stjörnunni að ljúka, þakið er við það að fara af, ef áfram heldur sem horfir endar þessi leikur utandyra…þvílík læti og stemmning!
 
Hilmar Geirsson hinn hávaxni vallarkynnir gerir nú dómurum leiksins og eftirlitsdómara skil, kynnir lið gestanna og svo heimamenn í Stjörnunni. 
 
Bein útsending á Stöð 2 Sport, bein textalýsing á Karfan.is, mbl.is og vísir.is, bein tölfræðilýsing á kki.is og líkast til ófáir að tísta frá leiknum héðan úr Ásgarði. Það ætti ekki sekúnda að fara fram hjá nokkrum manni í kvöld.
 
Smá nasaþefur af stemmningunni í Ásgarði:
 
Tíu mínútur í leik…þetta er að bresta á gott fólk! 
 
(Peppi Pepsi-karl er mættur í stúkuna, öllu til tjaldað í Ásgarði)
 
Silfurskeiðin syngur hér og trallar eins og enginn sé morgundagurinn, það er nokkuð ljóst að heimamenn í Garðabæ fá veglegan stuðning í kvöld.
 
Nú eru sléttar 20 mínútur í leik…við skulum búast við því að byrjunarliðin breytist lítið sem ekkert og að Stjarnan mæti með Justin Shouse, Marvin Valdimarsson, Jarrid Frye, Brian Mills og Fannar Helgason til leiks. Þá ættum við að sjá Sammy Zeglinski, Þorleif Ólafsson, Jóhann Árna Ólafsson, Aaron Broussard og Sigurð Gunnar Þorsteinsson byrja þetta fyrir Grindvíkinga. 
 
Hér er verið að tilkynnina að Hannes S. Jónsson formaður KKÍ eigi afmæli í dag. Vallargestir sungu fyrir formanninn og líkast til fjölmennasta afmæli Hannesar til þessa. Til hamingju með daginn Hannes!
 
Dómarar kvöldsins eru: Sigmundur Már Herbertsson, Kristinn Óskarsson og Rögnvaldur Hreiðarsson. Eftirlitsmaður er Pétur Hrafn Sigurðsson. 
 
Fréttir
- Auglýsing -