spot_img
HomeFréttirBronsverðlaun til 13 ára stúlkna á Copenhagen Invitational

Bronsverðlaun til 13 ára stúlkna á Copenhagen Invitational

Tólf efnilegar 13 ára körfuboltastelpur úr liðum Keflavíkur og Stjörnunnar náðum glæstum árangri í keppni 14 ára liða á Copenhagen Invitational körfuboltamótinu sem fram fór 16. – 18. júní sl. Þær gerðu sér lítið fyrir og tóku bronsverðlaun í keppni við árinu eldri stelpur. Stelpurnar kepptu undir merkinu Team Iceland.

Frá Keflavík voru þær Björk Karlsdóttir, Elva Björg Ragnarsdóttir, Erna Ósk Leifsdóttir, Heiðrún Lind Sævarsdóttir, Kamilla Nótt Bergsveinsdóttir, Lísbet Lóa Sigfúsdóttir og Telma Lind Hákonardóttir. Frá Stjörnunni voru þær Berglind Katla Hlynsdóttir, Embla Fönn Freysdóttir, Eva Ingibjörg Óladóttir, Marín Ósk Þormar Finnsdóttir og Þura Björg Jónsdóttir. Þjálfari liðsins var Arnór Daði Jónsson, þjálfari yngri flokka hjá Keflavík.

Fyrst mætti íslenska liðið sænska liðinu Södertalje BBK og unnu stelpurnar leikinn örugglega, 54-33. Næsti leikur í riðlinum var fyrirfram sá erfiðasti en þar mættu stelpurnar finnska liðinu PeKa, liði sem sigraði Scania Cup mótið fyrr á árinu. Leikurinn var hörkuleikur þar sem stelpurnar stóðu sig afskaplega vel en töpuðu þó leiknum, 43-50. Skotin féllu ekki með stelpunum í leiknum og þá hallaði verulega á íslenska liðið í fengnum villum. Þar fékk íslenska liðið 26 villur á móti 13 hjá því finnska. Finnska liðið stóð síðan á endanum uppi sem sigurvegari í mótinu.

Lokaleikur riðilsins var síðan leikur á móti IK Eos Lund frá Svíþjóð. Á liðunum var talsverður hæðarmunur en það kom ekki að sök þar sem íslenska liðið spilaði hraðan bolta og af mikilli ákefð, sem reyndist andstæðingum liðsins erfitt í gegnum allt mótið. Með sigri í lokaleiknum tryggði liðið sæti sitt í undanúrslitum.

Í undanúrslitum mættu stelpurnar feykilega sterku liði Csata Dse frá Ungverjalandi. Ungverska liðið var mun hávaxnara en íslensku stelpurnar og náðu þær ungversku að leysa pressuna vel sem þær fengu á sig. Þá voru skotin hjá íslenska liðinu ekki að detta, auk þess sem smávægileg meiðsli voru farin að hrjá liðið. Niðurstaðan var tap í undanúrslitum, 42-25.

Bronsleikurinn var síðan á móti sænska liðinu Duvbo Basket þar sem glæsilegur sigur vannst í hörkuleik, 45-41. Enn var hæðarmunur á liðunum en ákefðin og hraði íslenska liðsins vó þungt þegar leið á leikinn og þreytan farin að segja til sín hjá leikmönnum beggja liða. Sannarlega frábær árangur hjá íslensku stelpunum og virkilega gaman og dýrmætt fyrir þær að keppa saman á stærra sviði og ómetanleg reynsla sem þær fengu.

Berglind Katla Hlynsdóttir var valin í lið mótsins ásamt tveimur leikmönnum Csata Des, einum úr PeKa og einum úr Duvbo Basket. Aldeilis frábær árangur.

Stigaskor íslenska liðsins dreifðist ágætlega þar sem Berglind Katla Hlynsdóttir var stigahæst með 70 stig í mótinu. Kamilla Nótt Bergsveinsdóttir var með 44 stig, Lísbet Lóa Sigfúsdóttir 30 stig og Björk Karlsdóttir 26 stig. Allir leikmenn liðsins skiluðu flottu framlagi í mótinu og skoruðu allir leikmenn liðsins stig í mótinu.

Myndasafn (Jón Kristinn)

Umfjöllun, myndir / Jón Kristinn

Fréttir
- Auglýsing -