spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaBreiðablik valtaði yfir Þór Akureyri í Smáranum

Breiðablik valtaði yfir Þór Akureyri í Smáranum

Breiðablik lagði Þór Akureyri í kvöld í 8. umferð Subway deildar karla í Smáranum, 122-96.

Eftir leikinn er Breiðablik í 9. sætinu með 4 stig á meðan að Þór Akureyri er í 12. sætinu án stiga.

Munar um minna

Ljóst var fyrir leik að Sinisa Bilic yrði ekki með Breiðablik í leiknum, en samkvæmt heimildum Körfunnar hefur hann yfirgefið félagið. Munar um minna fyrir Blika, en hann hafði skilað 18 stigum og 7 fráköstum fyrir þá að meðaltali í 7 leikjum í vetur.

Gangur leiks

Það voru Þórsarar sem voru skrefinu á undan í fyrsta leikhlutanum. Heimamenn ná þó að loka gatinu og er allt jafnt fyrir annan, 23-23. Eric Etienne Fongue fór mikinn fyrir Þór á þessum upphafsmínútum, sett þrjá þrista og var með 11 stig eftir fyrstu tíu mínúturnar. Blikar taka svo öll völd á vellinum undir lok fyrri hálfleiksins. Vinna annan leikhlutann 39-21 og fara með 18. stiga forskot til búningsherbergja í hálfleik, 62-44.

Atkvæðamestur fyrir Þór í fyrri hálfleiknum var Ragnar Ágústsson með 14 stig og þá bætti Eric Etienne Fongue við 11 stigum og 4 fráköstum.

Líflegastir fyrir heimamenn í fyrri hálfleiknum voru Danero Thomas með 13 stig, Hilmar Pétursson með 12 stig og Everage Richardson með 12 stig, 4 stoðsendingar og 4 fráköst.

Heimamenn láta svo kné fylgja kviði í upphafi seinni hálfleiksins. Setja muninn mest í 28 stig í þriðja leikhlutanum, en Þórsarar ná aðeins að laga það fyrir lok fjórðungsins sem endar 93-69. Eftirleikurinn að er virtist nokkuð auðveldur fyrir þá. Sigra að lokum með 28 stigum, 122-96.

Kjarninn

Þórsliðið hefur farið gegnum mikinn öldudal með sína atvinnumenn það sem af er vetri, en loksins komnir með, að maður myndi halda, fullskipað lið. Að þeir nái samt ekki að gera betur en þetta gegn 1-6 Breiðablik bara hlýtur að vera ákveðið áhyggjuefni.

Blikar aftur á móti gera bara vel í kvöld. Andstæðingurinn kannski ekki sá sterkasti, en að ná í svona öruggan sigur í þessum mikilvæga leik er virkilega vel gert hjá þeim. Einnig í ljósi þess að þeir voru að spila án Sinisa Bilic, eins framlagshæsta leikmanns síns í vetur, sem ákvað að yfirgefa félagið á dögunum.

Nálægt stigametinu

122 stig er það mesta sem Breiðablik hefur skorað í einum leik í vetur, en þeir hafa í tvígang sett 117 stig og skora að meðaltali 108 stig í leik. 122 stig eru samt það næst mesta sem eitt lið hefur skorað í leik í vetur. Það mesta kom hjá KR, í framlengdum leik á móti Breiðablik í Vesturbænum, 128 stig.

Atkvæðamestir

Hilmar Pétursson var atkvæðamestur heimamanna í leiknum með 24 stig og 7 stoðsendingar. Þá bætti Everage Richardson við 20 stigum, 9 fráköstum og 7 stoðsendingum.

Hjá Þór var það Reginald Keely sem dró vagninn með 20 stigum, 11 fráköstum og 5 stoðsendingum.

Hvað svo?

Næst á Þór leik heima á Akureyri gegn Val komandi fimmtudag 9. desember, Blikar leika degi seinna gegn Vestra á Ísafirði.

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -