spot_img
HomeFréttirBreiðablik sigraði Fjölni í Smáranum

Breiðablik sigraði Fjölni í Smáranum

Breiðablik og Fjölnir buðu upp á hörkuleik í Smáranum í kvöld þegar liðin áttust við í 1. deild kvenna og lauk leiknum með 6 stiga sigri heimakvenna, 54-48. Þetta var fjórða viðureign liðanna í deildinni í vetur og hefur Breiðablik haft sigur í þeim öllum. Eftir sigurinn í kvöld situr Breiðablik á toppi 1. deildar kvenna með 16 stig eftir 11 leiki en næstar á eftir þeim kemur Þór Akureyri með 14 stig eftir 9 leiki og eiga því norðanstúlkur tvo leiki til góða á Blika. 
 

Fjölnisstúlkur náðu 4 stiga forystu strax í upphafi leiks en um miðbik fyrsta leikhluta var Breiðablik komið með yfirhöndina. Eftir það var Breiðablik yfirleitt skrefinu framar þó svo að Fjölnir hafi aldrei hleypt þeim langt frá sér. Einungis eitt stig skildi liðin að þegar fjórði leikhluti var tæplega hálfnaður en Breiðablik reyndist sterkara á lokasprettinum og landaði góðum 6 stiga sigri. Mistök í sóknarleiknum og tapaðir boltar voru nokkuð áberandi í kvöld og endaði Breiðablik með 22 tapaða bolta en Fjölnir 26. Skotnýting Fjölnis var betri í leiknum en 23 sóknarfráköst Blika með Isabellu Ósk fremsta í flokki, vógu þungt í kvöld. 

Atkvæðamestar í liði Breiðabliks voru Telma Lind Ásgeirsdóttir og Isabella Ósk Sigurðardóttir. Telma Lind skoraði 13 stig, tók 6 fráköst, stal 5 boltum og gaf 4 stoðsendingar og Isabella Ósk skoraði 11 stig og tók 15 fráköst. 

Hjá Fjölni Var Berglind Karen Ingvarsdóttir stigahæst með 15 stig, 6 fráköst og 4 stolna bolta og Kristín María Matthíasdóttir, Fanney Ragnarsdóttir og Eva María Emilsdóttir settu 7 stig hver. 

Tölfræði leiks

Myndasafn úr leik (Bára)

Fréttir
- Auglýsing -