Breiðablik vann mikilvægan sigur á heimamönnum á Vestra í Úrvalsdeild karla í kvöld, 100-89.
Eftir tiltölulega jafnan fyrri hálfleik þá stungu gestirnir úr Kópavogi af í þriðja leikhluta sem þeir unnu 32-20. Mest náðu þeir 22 stiga forustu áður en heimamenn náðu að minnka muninn aðeins í lokafjórðungnum.
Julio De Assis var stigahæstur heimamanna með 22 stig ásamt því að taka 7 fráköst og gefa 6 stoðsendingar. Marko Jurica kom næstur með 18 stig og Vestfjarðatröllið Nemanja Knezevic skilaði 16 stigum og 14 fráköstum.
Hjá Breiðablik var Danero Thomas á eldi en hann setti niður 7 þriggja stiga körfur og skoraði 26 stig alls. Hinn síungi Everage Richardson átti ekki síðri leik en hann endaði með myndarlega þrennu eða 25 stig, 10 fráköst og 10 stoðsendingar.