Tindastóll og Keflavík mættust í kvöld á Króknum. Stólarnir höfðu fyrir leikinn unnið síðustu tvo leiki sína og virtust vera á réttri leið eftir erfiða byrjun. Keflvíkingar voru hinsvegar í þriðja sæti deildarinnar aðeins tveimur stigum á eftir toppliðinu. Liðin fóru rólega af stað og var hittnin í lágmarki fyrstu mínúturnar og má segja að það hafi gefið fyrirheit um hvernig leikurinn þróaðist.
Byrjunarlið Tindastólsdrengja var Axel, Amani, Svavar, Helgi Rafn og Michael. Hinu megin byrjuðu Gunnar Einarsson, Rahshon Clark, Þröstur Jóhannsson, Hörður Axel og Sigurður G. Þorsteinsson. Eins og áður segir hittu bæði lið illa í upphafi. Þegar rúmar 6 mínútur voru liðnar var staðan 7 – 8. Þá fóru skotin að detta Keflavíkurmegin og þeir náðu tíu stiga forskoti 7 – 17. Þeim mun héldu þeir út leikhlutann og staðan að honum loknum var 15 – 24.
Sóknarleikur liðana batnaði lítið í 2. leikhlutanum. Keflavík byrjaði þó skárr því þeir náðu að skora fjögur stig á fyrstu fjórar mínútunum en Tindastóll ekkert!!! Eftir það fóru liðin að skiptast á körfum fram að leikhléi og munurinn rokkaði á 10 – 14 stig. Í hálfleik var staðan 26 – 40 og Stólarnir voru heppnir að Keflavík var ekki heldur að spila vel og því var munurinn ekki óyfirstíganlegur í síðari hálfleik. Amani Bin Daanish reyndi mikið fyrir Tindastól í fyrri hálfleik en varð sjaldan ágengt og náði aðeins að skora 4 stig. Vantaði alla leikstjórn í liðið og menn reyndu of mikið sjálfir. Svavar var sá eini sem skilaði sómasamlegum leik sóknarlega hjá heimamönnum, en varnarleikurinn var hinsvegar þokkalegur. Sigurður var yfirburðamaður hjá Keflavík og var kominn með 15 stig í hléinu og 10 fráköst. Clark var einnig sterkur undir körfunni og reif niður 9 fráköst í fyrri hálfleiknum.
Heimamenn fengu væntanlega yfirhalningu frá Karli þjálfara í hálfleik því þeir mættu greinilega ákveðnari til síðari hálfleiks. Þeir skoruðu fyrstu fimm stigin og minnkuðu muninn í 9 stig. Keflavík var nú samt ekki á þeim buxunum að gefa eftir og náði að svara fyrir sig. Þeir náðu að breikka bilið um miðjan þriðja leikhluta og náðu þá 17 stiga forskoti, 35 – 52. Stólarnir gáfust ekki upp og héldu í við þá það sem eftir var fjórðungsins. Eftir þrjá leikhluta var staðan 44 – 59 og greinilegt að leikurinn færi ekki í sögubækurnar fyrir leiftrandi sóknarleik. Rahshon Clark var orðinn meira áberandi sóknarlega fyrir Keflavík og sama var að segja um Helga Rafn hjá Tindastóli.
Keflvíkingar kláruðu svo leikinn á fyrstu mínútum fjórða leikhluta, komu stöðunni í 48 – 70. Þrátt fyrir góðar tilraunir heimamanna þá náðu þeir aldrei að ógna þeim að neinu ráði það sem eftir lifði leiks. Munurinn fór minnst niður í 12 stig þegar rúmar tvær mínútur voru eftir, en Keflavík átti meira eftir í restina og luku leiknum með 19 stiga sigri, 69 – 88. Davíð Jónsson kom sterkur inn af bekknum fyrir Keflavík í síðari hálfleik og setti niður fjóra þrista. Sigurður Þorsteins hélt áfram þar sem frá var horfið í fyrri hálfleik og skoraði alls 25 stig og tók 15 fráköst. Rahshon Clark skoraði 22 stig og hirti 19 fráköst. Hann var ekki mjög áberandi, en skilaði sínu mjög vel. Hjá Stólunum skoraði Svavar 22 stig og Helgi Rafn 13. Þá átti Axel ágætis leik bæði í vörn og sókn. Amani skoraði aðeins 7 stig, en náði 14 fráköstum í staðinn. Vandamál Tindastóls í þessum leik var að liðið lék ekki sem ein heild og menn reyndu of mikið sjálfir, auk þess að hittnin var í lágmarki. Keflavík skilaði 58% hittni úr tveggja stiga skotum og var það mest að þakka Sigurði og Clark sem Stólarnir réðu illa við í þessum leik. Annars var hittni Keflavíkur ekkert sérstök og hittu þeir td. aðeins úr 7 af 16 vítum. Keflavíkurliðið hefur oftast leikið betur í heimsóknum sínum á Krókinn, en þeir þurftu hinsvegar engan stjörnuleik til að vinna heimamenn að þessu sinni.
Stigaskor Tindastóls: Svavar 22, Helgi Rafn 13, Axel 12, Helgi Freyr 7, Amani 7, Michael 3, Hreinn 2, Sveinbjörn 2 og Sigmar 1.
Keflavík: Sigurður 25, Rashon 22, Davíð 12, Hörður 10, Elentínus 6, Þröstur 5, Sverrir og Gunnar 4 stig hvor.
Dómarnir í kvöld voru þeir Rögnvaldur Hreiðarsson og Eggert Þór Aðalsteinsson.
Jóhann Sigmarsson
Mynd: Hjalti Árnason