13:06
{mosimage}
(Frá leik Vals og Hamars á undirbúningstímabilinu. LaKiste Barkus gerir að jafnaði 28,5 stig í leik fyrir Hamar og því ljóst að liðið sem heild þarf að leggja mun þyngri lóð á vogarskálarnar en það gerir nú)
Sannkallaður botnslagur verður í Iceland Express deild kvenna í kvöld þegar Valur tekur á móti Hamri í Vodafonehöllinni. Hvorugu liðinu hefur tekist að landa sigri í deildinni og var Valskonum m.a. spáð 2. sætinu og hafa engan veginn staðið undir væntingum sem til þeirra hafa verið gerðar. Þá hafa Hamarskonur einnig valdið vonbrigðum þar sem þær luku síðustu leiktíð með glans og höfðu m.a. sigur á Keflavík seint á síðustu leiktíð.
Eftir leik kvöldsins í kvöld verður annað liðið í það minnsta búið að hífa sig upp af botninum en ljóst má vera að bæði þessi lið eiga mikið inni.
Valskonur töpuðu stórt gegn KR í síðasta leik og Hamar tapaði naumlega á heimavelli gegn Fjölni. Fagnaðarefni er fyrir Val að Signý Hermannsdóttir sé að nýju komin í raðir Vals en það gæti tekið einhvern tíma fyrir hana að komast í takt við liðið. Þá er von á bandarískum leikmanni til Vals en þegar Karfan.is innti Rob Hodgson þjálfara liðsins eftir því hvenær sá leikmaður væri væntanlegur átti hann bágt með að greina frá því hvenær nákvæmlega það yrði.