spot_img
HomeFréttirBorgnesingar miklu betri í Dalhúsum

Borgnesingar miklu betri í Dalhúsum

Nýliðar Skallagríms hafa nú unnið tvo leiki í röð í Domino´s deild karla og eru fyrir vikið komnir upp í 1.-5. sæti deildarinnar en Borgnesingar kjöldrógu Fjölni í Dalhúsum í kvöld þar sem lokatölur voru 70-91. Gestirnir tóku völdin snemma leiks og með þá Haminn Quaintance og Carlos Medlock í broddi fylkingar áttu gulir heimamenn sér aldrei viðreisnar von. Flottar frammistöður frá Trausta Eiríkssyni og Orra Jónssyni gáfu gestunum einnig byr undir báða vængi og óhætt að segja að nýliðarnir hafi sent spámönnum löngutöng síðustu tvær umferðir í deildinni.
 
Fjölnismenn buðu upp á eitt risavaxið ,,afsakið hlé” í Dalhúsum þar sem vélbúnaðurinn sem dregur út áhorfendapallanna lét ekki að stjórn. Áhorfendur máttu því standa og horfa á leikinn og fyrir vikið skapaðist smá gryfjustemmning sem er vel. Borgnesingar voru mættir með sína söngvasveit og bíður undirritaður spenntur eftir því að stuðningsmenn Skallagríms hitti fyrir stuðningsmenn Þórs úr Þorlákshöfn, það verður flott rimma!
 
Gestirnir úr Borgarnesi byrjuðu leikinn mun betur, komust í 4-14 með þrist frá Medlock og skömmu síðar í 7-20 en þá var Hjalta þjálfara Fjölnis nóg boðið og bað um leikhlé enda hans menn andlausir gegn áköfum Skallagrímsmönnum. Haminn Quaintance hrellti heimamenn með magnaðri frammistöðu á báðum endum vallarins, maðurinn fór á kostum í vörninni og á hinum endanum virtist hann eiga alltaf greiða leið upp að körfunni. Borgnesingar leiddu því 16-33 að loknum fyrsta leikhluta og heimamenn víðsfjarri sínu besta.
 
Fjölnir opnaði annan leikhluta með 9-3 byrjun og þeir Haminn og Medlock byrjuðu leikhlutann utan vallar hjá Skallagrím. Þeir duttu fljótt inn á parketið að nýju og undir þeirra forystu tókst Fjölni ekki að saxa almennilega á forskotið.
 
Leifur Arason náði að minnka muninn fyrir Fjölni niður í 10 stig, 34-44, á seinni stigum annars leikhluta. Páll Axel Vilbergsson vildi ekki vera útundan í þriggja stiga sýningunni og smellti einum og Árni Ragnarsson kom þá aðvífandi fyrir Fjölni og skellti niður þrist, hans fyrstu stig í leknum eftir tæplega 17 mínútna leik en Árni var nokkuð fjarri sínu besta í kvöld og það er eitthvað sem Fjölnismenn mega alls ekki við.
 
Borgnesingar juku muninn svo úr tíu stigum í sextán fyrir leikhlé og staðan 41-57 fyrir gestina í hálfleik og vörn heimamanna afar döpur og líflaus. Þá kom það illa við Fjölnismenn að erlendu leikmenn þeirra klöppuðu boltanum ansi hressilega og við það riðlaðist sóknarleikur heimamanna sem virtist aldrei í takt.
 
Spicer var með 13 stig í hálfleik hjá Fjölni og Matthews 10 en hjá Skallagrím var Haminn með 16 stig, 5 fráköst og 5 stolna bolta og Medlock var með 17.
 
Trausti Eiríksson lifnaði heldur betur við í þriðja leikhluta í liði gestanna og með þá Egil Egilsson og Hörð Helga í meiðslum varð Trausti að stíga vel upp og gerði það með miklum myndarskap gegn sínum gömlu liðsfélögum í Fjölni. Skallagrímur leiddi 60-73 að loknum þriðja leikhluta sem Fjölnir vann 19-16 en þó voru engar blikur á lofti um að þeir ætluðu sér eitthvað nærri Skallagrím.
 
Allar vonir heimamanna voru slökktar í upphafi fjórða leikhluta. Orri Jónsson, sem barðist með miklum myndarskap í kvöld, skellti þrist á Fjölnisvörnina og breytti stöðunni í 60-78 og þar með stóð hnífurinn í kúnni. Skaðinn var skeður hjá heimamönnum og gestnirnir kláruðu leikinn af öryggi 70-91. Magnaður sigur nýliðanna gegn taplausum Fjölnismönnum fyrir leik kvöldsins. Framlag Trausta Eiríkssonar og Orra Jónssonar var drjúgt og ljóst að þeir Egill og Hörður mega heldur betur koma inn með látum í Skallagrímsliðið ætli þeir sér að narta mínútur af Orra og Trausta þegar þeir koma til baka.
 
Einstaklingsframtakið sveif yfir vötnum Fjölnis í kvöld og það kann ekki góðri lukku að stýra. Erlendu leikmennirnir elska það greinilega að handleika boltann og það kom niður á annars skemmtilegum sóknarleik gulra sem vilja keyra upp hraðann en það var svona minna um það hjá þeim í kvöld. Þó skal það tekið fram að á mig rennur sá grunur að Fjölnir tapi ekki fleiri leikjum heima með 21 stigs mun!
 
 
Stigaskor leikmanna:
 
Fjölnir-Skallagrímur 70-91 (16-33, 25-24, 19-16, 10-18)
 
Fjölnir: Sylverster Cheston Spicer 24/10 fráköst, Christopher Matthews 13, Árni Ragnarsson 10/4 fráköst, Tómas Heiðar Tómasson 8, Jón Sverrisson 6/7 fráköst, Björgvin Hafþór Ríkharðsson 4, Leifur Arason 3, Gunnar Ólafsson 1, Arnþór Freyr Guðmundsson 1, Tómas Daði Bessason 0, Smári Hrafnsson 0, Albert Guðlaugsson 0.
 
Skallagrímur: Carlos Medlock 29, Haminn Quaintance 20/10 fráköst/5 stoðsendingar/6 stolnir, Páll Axel Vilbergsson 11/4 fráköst, Trausti Eiríksson 10/7 fráköst, Orri Jónsson 6, Davíð Ásgeirsson 5, Birgir Þór Sverrisson 4/4 fráköst, Atli Aðalsteinsson 3, Sigmar Egilsson 3, Hjalti Ásberg Þorleifsson 0, Davíð Guðmundsson 0, Andrés Kristjánsson 0.
 
Dómarar: Jón Guðmundsson, Georg Andersen, Aðalsteinn Hrafnkelsson
 
Myndir og umfjöllun/ [email protected]  
Fréttir
- Auglýsing -