Baráttan um sæti í úrslitakeppninni harnaði enn meira í kvöld þegar fjórir leikir fóru fram í 19. umferð Dominos deildar kvenna.
Í Borgarnesi tóku heimakonur á móti Keflavík sem sat í þriðja sæti deildarinnar fyrir leik. Leikurinn var gríðarlega mikilvægur fyrir Skallagrím sem hefði misst liðin fyrir framan sig framúr sér með tapi.
Það var ljóst frá upphafsmínútu að Borgnesingar ætluðu ekki að leggjast niður. Liðið náði forystunni snemma og komst í 12-3 eftir nokkrar mínútur. Skallagrímur setti 57 stig í hálfleik og fór með góða forystu til búningsklefa.
Líkt og við var að búast bitu keflvíkingar frá sér í seinni hálfleik og minnkuðu muninn minnst niður í 5 stig þegar rúm mínúta var til leiksloka. Skallagrímskonur sýndu mikinn karakter, svöruðu áhlaupi Keflavíkur sterkt og sóttu tíu stiga sigur 83-73.
Skallagrímur sækir þar með að Keflavík í fjórða sætinu og munar einungis einum sigri á liðunum eftir leiki kvöldsins. Keflavík hefur tapað fjórum af sex leikjum ársins 2020 og færast neðar í töflunni. Emilie Hesseldal var öflug líkt og áður og endaði með 13 stig, 16 fráköst og 6 stoðsendingar en þá var Keira Robinson frábær með 32 stig.
Keflavík heimsækir Grindavík í næstu umferð og Skallagrímur mætir Blikum.
Skallagrímur-Keflavík 83-73 (27-15, 30-19, 13-22, 13-17)
Skallagrímur: Keira Breeanne Robinson 32/8 fráköst/5 stoðsendingar, Maja Michalska 21/6 fráköst, Emilie Sofie Hesseldal 13/16 fráköst/6 stoðsendingar/7 stolnir, Sigrún Sjöfn Ámundadóttir 8/4 fráköst, Mathilde Colding-Poulsen 8/4 fráköst, Arnina Lena Runarsdottir 1, Heiður Karlsdóttir 0, Arna Hrönn Ámundadóttir 0, Gunnhildur Lind Hansdóttir 0, Lisbeth Inga Kristófersdóttir 0, Karen Munda Jónsdóttir 0.
Keflavík: Daniela Wallen Morillo 17/10 fráköst/5 stoðsendingar, Katla Rún Garðarsdóttir 13, Þóranna Kika Hodge-Carr 13/5 fráköst, Salbjörg Ragna Sævarsdóttir 9/8 fráköst, Anna Ingunn Svansdóttir 6, Irena Sól Jónsdóttir 5, Emelía Ósk Gunnarsdóttir 4, Kamilla Sól Viktorsdóttir 4, Elsa Albertsdóttir 2, Sara Lind Kristjánsdóttir 0, Edda Karlsdóttir 0, Eydís Eva Þórisdóttir 0.