Borgnesingar eru á fullu að þétta raðir sínar fyrir komandi átök í 1. deild karla. Á dögunum samdi liðið við fjóra leikmenn sem snúa nú til baka í liðið eftir fjarveru.
Fyrr í vikunni var tilkynnt að þeir Hjalti Ásberg Þorleifsson og Ásbjörn Baldvinsson hefðu samið við liðið.
Í tilkynningu Skallagríms segir: „Hjalti, sem er uppalinn Skallagrímsmaður, kemur í Skallagrím frá ÍA þar sem hann lék með þeim í 2. deildinni á síðasta tímabili. Þar áður lék hann með Skallagrími og eitt tímabil í Hveragerði með Hamri. Hjalti leikur stöðu bakvarðar og er 25 ára gamall. Ásbjörn, sem leikur stöðu framherja, kemur í Skallagrím frá Ármanni í 2. deildinni. Áður var hann í herbúðum Skallagríms en hann er upprunninn úr yngri flokkum ÍA. Hann er 20 ára gamall og er frá bænum Skorholti í Hvalfjarðarsveit.“
Einnig snúa tveir ungir og efnilegir leikmenn til baka í Borgarnes eftir ársvöld í Danmörku hjá þeim Craig Pedersen landsliðsþjálfara og Geoff Kotilla fyrrum þjálfara Snæfells. Þetta eru þeir Gunnar Örn Ómarsson og Marinó Þór Pálmason. Þeir semja til tveggja ára.
Þeir hafa síðasta ár leikið með EVN skólaliðinu í Danmörku við góðan orðstýr. Þar urðu þeir danskir meistarar U17 og var Marínó valinn MVP úrslitakeppninnar eftir sigurinn.
Skallagrímur féll í 1. deild karla á síðustu leiktíð og hafa misst þá Bjarna Guðmann og Björgvin Hafþór. Borgnesingar hafa einnig endurheimt Kristófer Gíslason frá Hamri og Davíð Guðmundsson frá Fjölni. Auk þess verður Bergþór Ægir Ríkharðsson áfram með liðinu. Manuel Rodriquez tók við þjálfun liðsins í sumar eftir að Finnur Jónsson hætti með liðið eftir nýliðið tímabil.