Marc Cuban fékk sendan reikning í vikunni uppá tæpar 40 milljónir íslenskra króna eða 340.947 dollara. Að þessu sinni er ekki verið að sekta hann fyrir að rífa kjaft en þetta er kostnaður vegna sigurskrúðgöngu Mavericks í síðustu viku á dögum Dallasborgar. Cuban sagði að hann myndi persónulega borga fyrir skrúðgönguna í stað þess að láta skattborgara standa uppi með kostnaðinn.
Borgarstarfsmenn í Dallas eru búnir að áætla kostnaðinn og fékk hann sendan reikning um hæl. Cuban sagði að hann myndi borga hann á gjalddaga en hann lofaði er Dallas varð meistari að borga fyrir kostnaðinn af skrúðgöngunni.
Það er mikil hefð í Bandaríkjunum að halda skrúðgöngur og enginn undantekning var á þegar Dallas varð NBA-meistari og haldin glæsileg skrúðganga þeim til heiðurs. Hátt í 250 þúsund manns mættu til að fagna NBA-meisturunum og voru tug þúsundir búnir að koma sér fyrir mörgum klukkutímum áður en hún hófst.
Þegar kostnaðurinn er sundurgreindur er ljóst að hæsta talan er við löggæslu eða um 270 þúsund dollara. Athygli vekur þó að borgarstarfsmenn hafa aðeins reiknað kostnað uppá 843 dollara eða tæpar 100 þúsund krónur í þrif þannig að það má gera ráð fyrir að íbúar Dallas séu afar þrifalegir eða þeir tóku einfaldlega allt draslið með sér að lokinni skrúðgöngunni.
Mynd: Hundruðir þúsunda íbúa Dallas fögnuðu NBA-meisturunum. Cuban borgar fyrir hátíðarhöldin með bros á vör.