spot_img
HomeNeðri deildir1. deild karlaBorche tekur við Fjölni

Borche tekur við Fjölni

Meistaraflokkur karla hjá Fjölni hefur loks ráðið þjálfara fyrir komandi átök en félagið hefur samið við hinn geðþekka Borche Ilievski um að stýra Fjölni í 1. deild karla.

Lið Fjölnis kom skemmtilega á óvart á síðustu leiktíð, þá undir stjórn Halldórs Karls Þórssonar sem nú er tekinn við liði Hamars. Liðið er skipað ungum og efnilegum strákum sem eiga framtíðina fyrir sér.

Yfirlýsingu Fjölnis má finna hér að neðan:

Fjölnir hefur samið við Borche Ilievski Sansa um að taka við þjálfun meistaraflokks karla ásamt öðrum flokkum.

Borche þekkja allir unnendur körfubolta á Íslandi en hann hefur þjálfað hér á landi frá árinu 2006 með góðum árangri.

Hann byrjaði á Ísafirði og kom Vestra upp í efstu deild á sínum tíma. Þá hefur hann einnig þjálfað Tindastól, Breiðablik og ÍR og undanfarið ár þjálfað yngri flokka hjá KR.
Í spjalli við Fjölni Körfu sagði Borche m.a:

Ég hef ákveðið að taka áskoruninni og taka að mér þjálfun Fjölnisliðsins sem er ungt og mjög efnilegt. Það hefur greinilega hlotið góða þjálfun á undanförnum árum.

Það þarf að halda vel utan um hópinn og verkefnið er skýrt. Við þurfum sem hópur að efla liðsheildina dag frá degi og bæta okkur tæknilega, líkamlega og taktískt. Við erum klárlega með leikmenn sem geta náð mjög langt.

Markmið okkar er að verjast af ákefð og spila hraðan bolta með góðu flæði. Það er stóra áskorunin.
Leikmennirnir eiga mikið inni og ég er 100% viss um að fjölmörg tækifæri bíða okkar.
En allt snýst þetta um að leikmenn, sem vilja ná langt, forgangsraði og leggi sig alla fram.

Ég mun hjálpa þeim með þetta og er virkilega ánægður með hópinn.

Fréttir
- Auglýsing -