ÍR tilkynnti í kvöld að félagið hafi ráðið Kristján Pétur Andrésson til aðstoðar við Borche Ilievski þjálfara liðsins í Bónus deild karla. Tilkynnir félagið þetta í fréttatilkynningu fyrr í kvöld.
Kristján Pétur er meðal annarra liða fyrrum leikmaður ÍR, en hjá þeim lék hann undir stjórn Borche er hann var þjálfari þeirra síðast. Þá hefur hann verið í kringum félagið síðan að feril hans lauk og hefur hann samkvæmt tilkynningu gengið í því sem næst öll störf fyrir félagið.
Eftir að hafa þjálfað ÍR á árunum 2015 til 2021 tók Borche við ÍR aftur á dögunum. Fyrir voru þar Ísak Máni Wíum og Baldur Már Stefánsson, en síðan Ísak sagði starfi sínu sem aðalþjálfari ÍR lausu hefur Baldur einnig yfirgefið félagið og er hann nú aðalþjálfari fyrrum félags Borche Fjölnis í fyrstu deild karla.
Tilkynning:
Kristján Pétur þekkjum við vel og er hann öllum hnútum kunnugur í Breiðholtinu eftir að hafa spilað með liði okkar í allnokkur ár, m.a. undir stjórn Borche, og gengið í því sem næst öll störf fyrir félagið eftir að ferlinum lauk. Um ræðir sannkallaðan hvalreka fyrir liðið enda er Stjáni P – eins og við þekkjum hann – hafsjór af fróðleik og frábær liðsfélagi. Slíkir eiginleikar prýða alla jafna góðan aðstoðarþjálfara.