Stjarnan hefur samið við Stefan Bonneau sem lenti í morgun á Íslandi og ef allt gengur eftir mun hann leika sinn fyrsta leik gegn sínum gömlu félögum í Njarðvík á komandi fimmtudag. "Þetta er þekkt stærð, leikmaður sem getur búið til hluti úr engu sem getur verið gagnlegt að setja inn í vissa leiki. Tímabililð er langt og ástæða þess að við bætum honum við er sú að hópurinn má ekki við miklum skakkaföllum þegar líður á mótið." sagði Hrafn Kristjánsson þjálfari Stjörnunar í samtali við Karfan.is
Bonneau ættu í raun allir körfuknattleiksunnendur á landinu að þekkja og sögu hans í Njarðvík þar sem hann sleit báðar hásinar á ferli sínum. Bonneau hefur langt mikið á sig að komast aftur í sitt besta form og eftir stutta dvöl á Kýpur er hann nú komin aftur til landsins. Fróðlegt verður að sjá Bonneau aftur í Dominosdeildinni en skemmtilegt viðhorf hans og bros ásamt frábærum körfuknattleikshæfileikum bræddi marga. +
"Samningurinn er með ákvæði í byrjun sem er einskonar reynslutími svo við getum skoðað hvernig líkamsástand hans er." sagði Hrafn að lokum. Bonneau reyndist þeim Stjörnumönnum afar erfiður í úrslitakeppninni árið 2015 en hann skoraði meðal annars 36 stig í oddaleik í Ljónagryfjunni þar sem að Njarðvík slógu út Stjörnuna og fóru í undanúrslit gegn KR. Þar átti Bonneau tilþrif sem enn sjást reglulega á skjám landsmanna og voru Njarðvíkingar það árið hársbreidd frá úrslitaeinvíginu.