Átta leikir fóru fram í NBA deildinni í nótt þar sem tvíframlengja varð viðureign Washington Wizards og Charlotte Bobcats. Kapparnir frá Charlotte eru heldur betur að rétta úr kútnum en þeir lögðu Wizards á endanum og hafa byrjað leiktíðina vel eftir að hafa afrekað það á síðastliðnu tímabili að ná versta árangri í sögu NBA. Dallas varð svo LA Lakers auðveld bráð á sínum eigin heimavelli.
Washington 106-108 Charlotte
Byron Mullens var stigahæstur í liði Bobcats með 27 stig og 8 fráköst en hjá Washington var Martell Webster atkvæðamestur af bekk heimamanna með 21 stig. Þetta var ellefti tapleikur Washington í röð og hefur liðið ekki unnið leik þetta tímabilið. Staðan var 92-92 að loknum venjulegum leiktíma og að lokinni fyrstu framlengingunni var staðan 99-99. Það var svo Kemba Walker sem tryggði Bobcats sigurinn á vítalínunni 106-108 en Walker daðraði við þrennuna með 12 stig, 7 fráköst og 8 stoðsendingar.
<iframe width=”640″ height=”360″ src=”http://www.youtube.com/embed/RgQ2encBig8″ frameborder=”0″ allowfullscreen></iframe>
Dallas 89-115 LA Lakers
Sex liðsmenn Lakers voru með 11 stig eða meira í leiknum og þrír jafnir með 19 stig en það voru þeir Metta World Peace, Kobe Bryant og Antawn Jamison. Vince Carter var stigahæstur í liði Dallas en hann gerði 16 stig komandi af tréverkinu.
Önnur úrslit næturinnar:
Philadelphia 109-116 Oklahoma (framlengt)
Atlanta 104-93 LA Clippers
Miami 110-108 Cleveland
Milwaukee 86-93 Chicago
Sacramento 108-97 Utah
Golden State 96-85 Minnesota
Mynd/ Kemba Walker og félagar í Bobcats eru að rétta úr kútnum eftir sögulega dapra frammistöðu á síðasta tímabili.