21:46
{mosimage}
Haukar og Breiðablik áttust við í 17. umferðí Iceland Express-deildar kvenna í kvöld. Fyrirfram mátti búast við auðveldum Haukasigri en töluverð veikindi hafa verið að hrjá Blikaliðið. Eftir slaka byrjun tóku Blikastelpur við sér og sýndu á köflum góðan leik.
Haukar byrjuðu leikinn rosalega vel með Ifeoma Okonkwo í fararbroddi. Breiðablik réð ekkert við hana en hún skoraði 6 af fyrstu 9 stigum leiksins. Breiðablik minnkaði muninn með þremur stigum frá Victoria Crawford en þá kom annar góður kafli hjá Haukum og staðan orðin 31-5. Eftir þetta var aldrei spurning hvor megin sigurinn endaði en fyrsti leikhluti endaði 43-7.
Breiðablik hóf annan leikhluta af miklum krafti. Þær skoruðu fyrstu 11 stig leikhlutans en alls skoruðu þær 30 stig í leikhlutanum. Haukar rönkuðu aðeins við sér og munurinn í hálfleik var 61-37.
Ifeoma hóf seinni hálfleik eins og þann fyrri, hún var óstöðvandi. Hún skoraði 9 fyrstu stig Hauka en hún skoraði alls 30 stig í leiknum. Haukar juku muninn jafnt og þétt og náðu mest 51 stigs forystu. Lokatölur leiksins voru 116-74.
Breiðablik barðist allan leikinn þrátt fyrir að hafa lent undir strax frá upphafi og er það til fyrirmyndar. Þær hefðu getað gefist upp en þar sem þær gerðu það ekki varð leikurinn ágætis skemmtun og reynsla fyrir bæði lið.
Hjá Haukum komust allir leikmenn liðsins á blað og var Ifeoma lang atkvæðamest með 30 stig, Kristrún Sigurjónsdóttir skoraði 15 stig og næst henni kom Ragna Margrét Brynjarsdóttir með 13 stig af bekknum en varamenn Hauka skoruðu alls 59 stig í leiknum.
Hjá Breiðablik skoraði Victoria Crawford 39 stig og Ragnheiður Theodórsdóttir var með 19 stig.
mynd: Karfan.is