Breiðablik og Keflavík mættust í kvöld í Smáranum í leik. Breiðablik tók öll völd í leiknum og þrátt fyrir góðan seinni hálfleik gátu Keflvíkingar ekki náð muninum niður fyrir leikslok. Blikar enduðu á að vinna 73-66.
Fyrir leikinn var ljóst að Fanney Lind Thomas, framherji Breiðabliks, yrði ekki meira með á tímabilinu en hún fékk höfuðhögg í seinasta leik gegn Keflavík. Hún hefur sögu af höfuðhöggum og hefur því ákveðið að spila ekki meira á þessu tímabili. Að öðru leyti voru allir leikfærir.
Gangur leiksins
Breiðablik byrjaði frá fyrstu mínútu með góða vörn og settu Danielu Morillo í gjörgæslu. Iva Georgieva spilaði fantagóða vörn á besta leikmann Keflavíkur þannig að hún skoraði aðeins 4 stig í öllum fyrri hálfleiknum. Á sama tíma sótti hún fast á Keflvíkinga í sókn og skoraði 25 stig fyrstu 20 mínútur leiksins.
Keflvíkingar gátu ekki komið neinu í gang og eftir 15 mínútur spilaðar höfðu þær aðeins skorað 13 stig. Blikar gáfu aðeins eftir á lokamínútunum í fyrri hálfleiknum og gestirnir gátu aðeins náð muninum niður. Liðin fóru í búningsklefana í stöðunni 42-22, Breiðablik í vil. Keflavík hafði aðeins hitt úr 8 skotum af 41 utan af velli í fyrri hálfleik, afleitur sóknarleikur og skotnýting framan af.
Í seinni hálfleik hófu Keflvíkingar að minnka muninn og gerðu það með betri frammistöðum hjá Danielu og Salbjörgu Rögnu í þriðja leikhluta. Þær spiluðu vel upp á hvor aðra en Blikar hættu ekki að berjast og héldu í við gestina þannig að staðan hafði aðeins lagast um 4 stig fyrir lokafjórðunginn.
Áfram hélt Keflavík að herja á forskot heimaliðsins og eftir 8-0 áhlaup ákvað Ívar Ásgrímsson, þjálfari Breiðabliks, að taka leikhlé í stöðunni 59-51. Blikar voru að gera mikið af mistökum og pössuðu ekki vel upp á boltann svo Keflavík fékk nóg af auðveldum körfum.
Blikar náðu að halda aftur af Keflavík á lokakaflanum með nokkrum góðum leikfléttum og fínni vörn. Kópavogspíurnar náðu að lokum góðu sjö stiga sigri, 73-66.
Lykillinn
Lykillinn í kvöld voru Iva Georgieva og Jessica Loera, að öðrum ólöstuðum. Iva lauk leik með 28 stig, 7 fráköst og spilaði geggjaða vörn á aðal leikmanninn í hinu liðinu. Jessica var frábær með 8 stig, 9 fráköst, 16 stoðsendingar, 4 stolna bolta og 3 varin skot!
Hjá Keflavík var fátt um fína drætti, en Daniela Morillo náði að eiga nægilega góðan seinni hálfleik til að vera best hjá sínu liði í kvöld. Daniela skoraði 19 stig, tók 19 fráköst og stal 6 boltum.
Kjarninn
Breiðablik áttu skilið að vinna þennan leik en voru ekki langt frá því að tapa þessu frá sér. Þær grænklæddu hafa oft átt góða leiki en svo misst hausinn á lokasprettnum en nú náðu þær að klára reikningsdæmið. Ef þær halda áfram að standa sig svona vel og geta klárað leikina þá þurfa liðin á toppinum að fara passa sig.
Keflvíkingar mættu ekki tilbúnar til leiks í kvöld og þó að þær hafi náð að klóra sig aftur inn í leikinn og láta ekki slátra sér þá hefði það aldrei þurft að gerast ef þær hefðu ekki byrjað leikinn svona illa. Eins og Jón Halldór Eðavaldsson, þjálfari Keflavíkur, sagði eftir leikinn þá mættu þær ekki við því að spila svona, þó ekki væri nema hluta leiks.