spot_img
HomeFréttirBlikar hafa einu sinni unnið KR

Blikar hafa einu sinni unnið KR

11:30

{mosimage}

Nú styttist í að úrslitakeppni Iceland Express deildar karla hefjist. Klukkan 16 á morgun hefjast leikar með tveimur leikjum. Það er forvitnilegt að skoða þessar fjórar viðureignir í sögulegu ljósi. Úrslitakeppnin nú er sú 26. frá upphafi en fyrst var leikin úrslitakeppni vorið 1984.

Snæfell – Stjarnan
Stjarnan hefur aldrei komist í úrslitakeppni áður, tímabilið núna er aðeins þriðja tímabilið sem bikarmeistararnir leika í Úrvalsdeild.  Þetta er hins vegar í sjöunda sinn sem Snæfell kemst í úrslitakeppni, fyrst var það árið 1999 og hafa þrisvar leikið til úrslita, nú síðast vorið 2008. Liðin hafa mæst fjórum sinnum í Úrvalsdeild og hafa Snæfellingar unnið þrjá leiki og Stjarnan einn, í næstsíðustu umferðinni í vetur.

Grindavík – ÍR
Grindavík komst fyrst í úrslitakeppni vorið 1990 og voru svo aftur þar 1991, þeir komust ekki 1992 en frá 1993 hafa þeir alltaf verið í úrslitakeppni og urðu Íslandsmeistarar 1996. ÍR ingar hins vegar komust fyrst í úrslitakeppni 1995 og er þetta níunda úrslitakeppni þeirra og þrisvar hafa þeir komst í undanúrslit en aldrei úrslit. Samt sem áður er ÍR það lið sem oftast hefur orðið Íslandsmeistari eða 15 sinnum, síðast 1977. Grindavík og ÍR hafa aldrei áður mæst í úrslitakeppni en hafa mæst 38 sinnum í Úrvalsdeild, fyrst 12. desember 1987 þar sem ÍR sigraði 62-50. Stigahæstur ÍR var Karl Guðlaugsson með 21 stig en Rúnar Árnason skoraði mest Grindavíkinga eða 12 stig. Af þessum 38 leikjum hefur Grindavík unnið 27 og ÍR 11, ÍR vann 4 af fyrstu 5 leikjum liðanna. Stærsti sigurinn var 10. desember 2004 í Grindavík þegar ÍR vann með 37 stigum, 103-66.

KR – Breiðablik
Úrslitakeppnin nú er 22. úrslitakeppnin sem KR tekur þátt í, þeir voru með 1984 þegar úrslitakeppni var leikin í fyrsta skipti og hafa verið með alltaf nema 1986, 1988, 1993 og 1994. KR hefur þrisvar orðið Íslandsmeistari eftir úrslitakeppni, 1990, 2000 og 2007 og alls tíu sinnum Íslandsmeistari. Breiðablik hefur einu sinni komist í úrslitakeppni, 2002. KR og Breiðablik hafa aldrei mæst í úrslitakeppni en 18 sinnum í deildarkeppni og hafa Blikar unnið einn leik, 17. febrúar 2002 í DHL höllinni, 93-75 og má til gamans geta að annar dómari leiksins var undirritaður.

Keflavík – Njarðvík
Það hafa fá lið leikið jafn oft í úrslitakeppni og Keflavík og Njarðvík auk þess sem þau hafa oft mæst þar. Njarðvík hefur aðeins einu sinni ekki komist í úrslitakeppni en það var 1993, þeir hafa leikið 153 leiki í úrslitakeppni og unnið 98 sem er 64% sigurhlutfall. Keflavík hefur hins vegar leikið 161 leik í úrslitakeppni og unnið 95 sem er 59% sigurhlutfall. Njarðvík hefur 13 sinnum orðið Íslandsmeistari og Keflavík 9 sinnum, Njarðvík vann titilinn tvisvar áður en úrslitakeppnin var tekin upp en annars hafa 20 af titlum félaganna unnist eftir úrslitakeppni, það hefur því aðeins gerst fimm sinnum að önnur félög hafa unnið úrslitakeppnina. Liðin hafa mæst 33 í úrslitakeppni og hefur Njarðvík unnið 17 sinnum en Keflavík 16 sinnum. Ef tekin er deildarkeppni með þá hafa liðin mæst 97 sinnum og hefur Njarðvík unni 55 sinnum en Keflavík 42 sinnum. Fari svo að einvígi þeirra fari í oddaleik verður það 100. viðureign félaganna í deildar- og úrslitakeppni.

[email protected]

Mynd: [email protected]

 

Fréttir
- Auglýsing -