spot_img
HomeFréttirBlikar efstir eftir tvo leiki, Vestri með sitt fyrsta tap

Blikar efstir eftir tvo leiki, Vestri með sitt fyrsta tap

Breiðablik tók á móti Vestra í mánudagsleik í Smáranum í Kópavogi. Fyrir leikinn höfðu Blikar unnið Gnúpverja sannfærandi á heimavelli á meðan að Vestramenn höfðu rétt náð að sigra Snæfell á Ísafirði.

Heimamenn náðu strax góðri forystu en ísfirksu gestir þeirra voru aldrei langt undan. Breiðablik rúllaði vel á mannskapnum hjá sér á meðan að fimm leikmenn Vestra spiluðu meira en 30 mínútur í leiknum (og því minna um mínútur fyrir aðra leikmenn). Þrátt fyrir nokkur ágæt áhlaup frá Ísfirðingunum kláruðu Kópavogsbúarnir leikinn af nokkru öryggi, 94-76.

Þáttaskil

Breiðablik leiddi mest allan leikinn en í upphafi 3. leikhluta komust liðsmenn Vestra yfir með einu stigi, 46-47. Heimamenn voru þá fljótir að svara og náðu á næstu 5 mínútum að skora 15 stig gegn 5 stigum Vestra. Eftir það virtist loftið aðeins fara úr gestunum og Blikar sigldu 18 stiga sigri í höfn í fjórða leikhluta.

Tölfræðin lýgur ekki

Þó að Vestramenn hafi nýtt 2ja stiga skotin betur en Breiðablik  þá gekk ekkert að hitta fyrir utan þriggja stiga línuna, en gestirnir hittu aðeins úr 4 þristum í 23 tilraunum (17% nýting) á meðan að Smáralingarnir hittu úr 14 þristum í 38 tilraunum (37% nýting). Ásamt því voru vítaskotin eitthvað að vefjast fyrir Ísfirðingunum, en þeir nýttu aðeins 10 af 20 vítum sínum, á meðan að hittu úr fleiri vítum í færri tilraunum (14 af 17).

Hetjan

Bandarískur leikmaður Breiðabliks, Jeremy Smith, átti mjög góðan leik en hann gældi við þreföldu tvennuna í þessum leik. Hann skoraði 25 stig, tók 11 fráköst og gaf 8 stoðsendingar. Hann er nær triple-double í þessum leik en þeim síðasta gegn Gnúpverjum (22 stig/9 fráköst/7 stoðsendingar) og ljóst að hann gæti hæglega átt nokkra slíka leiki ef fram heldur sem horfir.

Kjarninn

Vestri hefur nokkra góða leikmenn í liðinu sínu en þurfa aðeins meiri breidd til að geta átt séns á að vinna sterkustu liðin í deildinni. Félagaskipti erlends leikmanns númer tvö eru gengin í gegn og vonandi fær hann leikheimild nægilega fljótt til að ísfirska liðið geti klárað leiki betur.

Breiðablik er nokkuð augljóslega með sterkari liðum deildarinnar (ef ekki það sterkasta) og með breiðasta hópinn, en það skoruðu fimm leikmenn liðsins 10+ stig í kvöld ásamt því að 7 leikmenn spiluðu 20+ mínútur í leiknum. 

Þá eru Blikar efstir í deildinni með 2 sigra og 50 stig í +/- á meðan að Vestri hefur 1 sigur og -14 stig í +/-. Næsti leikur Vestra er gegn Gnúpverjum á Ísafirði á meðan að Breiðablik mætir FSu í Iðu á Selfossi.

Fréttir
- Auglýsing -