Björn Kristjánsson, leikmaður KR, er viðmælandi í nýjasta þætti af Undir Körfunni. Meðal umræðuefna var einvígi KR og Vals í úrslitakeppninni á síðasta tímabili. Björn skildi ekki alveg af hverju þessi rimma var jafn mikið blásin upp og raun bar vitni, þar sem KR og Valur eiga sér ekki langa sögu af viðureignum í körfubolta.
„Þetta er samt alveg eitthvað sem ég tengi ekki við, þetta Vals hatur. Í körfunni er Valur ekki neitt, Valur er að vissu leyti fótbolta klúbbur líka og fótbolta megin er Valur hataður af KR. KR-ingar hata Val. Ég var samt ekki að tengja við þetta því Valur var aldrei í efstu deild, ég hef varla spilað við Val. Þetta sat samt greinilega í mönnum og alveg töluvert. Af því að þetta var Valur og af því að þetta voru þessir leikmenn. Þeir hefðu getað farið í hvaða lið sem er og menn hefðu ekkert hatað Kristó eða Jón minna ef þeir hefðu farið í Keflavík,“ sagði Björn Kristjánsson í þættinum.
Valur fékk fjölda af KR-ingum til að ganga til liðs við félagið fyrir tímabilið 2020-2021. Jón Arnór Stefánsson, Pavel Ermolinskij og Kristófer Acox voru á meðal leikmanna sem skiptu úr Vesturbænum yfir á Hlíðarenda fyrir síðasta tímabilið. Þessi skipti fóru ekki vel í stuðningsmenn KR.
„Ég held að fólk sem var í kringum [KR] klúbbinn, sem skildi ekki alveg hvað var í gangi, var vissulega pirrað. Kristó og Jón eru náttúrulega bara vinir mínir en það var alveg þrot í gangi upp á greiðslur og svona.“
Þrátt fyrir að félagaskiptin hefðu legið í loftinu þá var óvenjuleg stemning á Meistaravöllum þegar að þau gengu formlega í gegn.
„Þetta var skrítinn stemning. Óvænt að einhverju leyti þó svo að maður bjóst við þessu. Ég hélt alveg að þeir myndu vera áfram einhvern vegin. Þetta var alveg högg.“
„Leikmennirnir skildu þetta alveg þegar þeir skiptu yfir. Í seríunni sjálfri var þetta alveg skrítið, að vera að spila á móti þeim og allt það. Vesenið var þó allt utan vallar. Það var alltaf eitthvað í gangi upp í stúku eftir hvern einasta leik. T.d. eftir leik númer eitt, þá brutu einhverjir KR-ingar eitthvað í stúkunni hjá Val og eftir leik tvö þá var verið að gasa menn eftir leik, atvikið með Pavel og svona. Maður var alltaf að frétta einhverju. Það voru svo menn sem ætluðu að berja Kristó eftir einhvern leikinn. Það var alltaf eitthvað í gangi, svona eins og það hafi ekki verið nóg að gerast inn á vellinum þá var líka svona fjölmiðla sirkus í kringum þetta.“
Serían fór alla leið í oddaleik þar sem KR hafði betur en allir leikirnir milli liðanna voru vægast sagt æsispennandi. Svo spennandi að leikmenn annara liða voru meira að spá í þessu einvígi frekar en sínu eigin.
„Ég hitti alveg leikmenn í Grindavík og Stjörnunni og fleiri. Menn sögðu við mig að þeir nenntu ekki að spila sína seríu heldur biðu þeir eftir því að sjá næsta leik milli KR og Val.“
KR mætti svo Keflavík í undanúrslitum þar sem Keflavík vann einvígi liðanna þægilega, 3-0. Vegna þess eru Björn og Kristó enn þá vinir í dag samkvæmt Birni.
„Ég og Kristó erum rétt svo að verða vinir aftur núna, eftir að við unnum. Hann varð hrikalega sár. Það bjargaði vinskapnum okkar að við töpuðum gegn Keflavík. Hann talar alltaf um að okkur í KR var sópað út, svona eins og við hefðum aldrei unnið þá í Val. Það skipti ekki máli. Það skipti meira máli að KR hafi tapað en að Valur hafi unnið,“ sagði Björn Kristjánsson, leikmaður KR. Hægt er að hlusta á þáttinn í heild með því að smella hér.