Penninn í Njarðvík er kominn í gang og nú hafa þeir Njarðvíkingar staðfest komu Björns Kristjánssonar til liðsins fyrir komandi tímabil. "Þrátt fyrir ungan aldur er Björn hlaðinn reynslu og kemur úr stórkostlegur meistaraliði KR síðustu ára. Þetta er vissulega ánægjulegt fyrir okkur þar sem að Björn er yfirvegaður leikstjórnandi og getur líka farið í skotbakvörðinn. Við erum ekki bara að hugsa til næsta tímabils heldur hugsum við þetta til framtíðar og ætlum okkur stóra hluti." sagði Gunnar Örlygsson formaður kkd. UMFN í samtali við Karfan.is
Nýliðin vetur fór sú saga í gang að Björn hefði viljað fara til Njarðvíkinga en ekkert varð úr því. Björn hefur verið drjúgur í meistaraliði KR og átti meðal annars stóran þátt í því að KR komust í gegnum eina stórkostlegustu seríu síðari ára á síðasta tímabili gegn einmitt Njarðvíkingum. Það er því óhætt að segja að Njarðvíkingar eru að styrkja sig á kostnað meistara KR en sem fyrr segir Björn reynst þeim KR góður á ögurstundum, og sér í lagi þegar Pavel Ermolinski átti við meiðsli að stríða.
Það er því ljóst að á komandi tímabili munu þeir bræður Björn og Oddur spila saman í Njarðvíkinni.