Björgvin Hafþór Ríkharðsson samdi fyrir rúmri viku við nýliða Skallagríms í Dominos deild karla. Hann mun leika með liðinu eftir tveggja ára veru hjá Tindastól.
Björgvin hefur leikið með Tindstól síðustu tvö ár þar sem hann hefur verið í gríðarlega sterku liði Skagfirðinga. Hann var með 5 stig og 2,9 fráköst að meðaltali á síðustu leiktíð er Tindastóll féll úr leik í úrslitaeinvíginu. Hann hefur einnig leikið með ÍR og Fjölni.
Þú ert að snúa aftur í Borgarnes eftir nærri 10 ára fjarveru. Hvernig er tilfinningin að snúa heim?
Tilfinningin er mjög góð, alltaf gott að koma á gamlar heimaslóðir.
Hvers vegna valdir þú að ganga til liðs við Skallagrím og voru fleiri lið sem sýndu áhuga?
Skallagrímur eru með skemmtilegt lið og valdi ég það af því ég tel mig geta hjálpað liðinu og það hjálpaði líka til þar sem Borgarnes er minn gamli heimabær og hefur mér alltaf liðið vel hér. Svo hafði það auðvitað sín áhrif að litli bróðir minn er einnig að koma í Borgarnes. Já mér var sýndur áhugi frá öðrum liðum, en fannst þetta aldrei spurning eftir að Skallagrímur heyrði í mér.
Hvernig lýst þér á liðið og þjálfarann fyrir næsta tímabil?
Skallagrímur eru með ungt og efnilegt lið og verður gaman að berjast með þeim í Dominos deildinni. Finn Jóns þekki ég frá því í denn og er ég spenntur að taka slaginn með hann sem þjálfara.
Á hvaða nótum kveður þú Tindastól?
Ég tók ákvörðun um að fara frá Tindastól. Ég átti gott spjall með Stebba formanni og Israel Martin, áður en ég samdi við Skallagrím. Þeir sýndu ákvörðun minni skilning um að fara frá Tindastól. En aftur á móti á ég eftir að sakna margra góðra félaga og vina sem ég kynntist á þessum 2 árum sem ég var á Króknum.
Ég vil enda á að þakka Tindastól fyrir þann góða tíma sem ég hef átt með liðinu og umgjörðinni þar umkring og óska þeim alls hins besta á komandi árum.