Í gær fór fram athöfn þar sem Íþróttamaður Borgarfjarðar árið 2018 var kynntur. Þetta árið var það körfuknattleiksmaðurinn efnilegi Bjarni Guðmann Jónsson sem hlaut tilnefninguna í ár.
Á heimasíðu UMSB sem sér um valið segir um Bjarna: „Bjarni er einn af lykilleikmönnum í meistaraflokki Skallagríms í körfuknattleik. Hann átti stóran þátt í því að vinna liðinu sæti í úrvalsdeild síðastliðið vor og hefur stimplað sig inn sem einn efnilegasti körfuknattleiksmaður úr yngri flokki Skallagríms. Á árinu var Bjarni valinn til að leika með U 20 ára landsliði Íslands en liðið spilaði í A deild Evrópumóts í Þýskalandi.“
Bjarni Guðmann er með 10 stig og 5,2 fráköst að meðaltali fyrir Skallagrím í Dominos deildinni hingað til. Hann hefur hlotið mikla athygli fyrir baráttu sína og elju á vellinum.
Sigrún Sjöfn Ámundadóttir leikmaður Skallagríms í Dominos deild kvenna var í þriðja sæti í kjörinu. Einnig var Davíð Guðmundsson núverandi leikmaður Fjölnis tilnefndir en hann var útnefndur íþróttamaður ungmennafélagsins Íslendings á árinu. Davíð lék með Skallagrím á síðustu leiktíð er liðið vann sér sæti í Dominos deildinni.