spot_img
HomeFréttirBirna í þriggja leikja bann?

Birna í þriggja leikja bann?

 

Hin unga og stórefnilega Birna Benónýsdóttir gæti mögulega verið á leið í þriggja leikja bann en stúlkan gerðist sek um brot í þriðja leik Keflavíkur og Snæfells í gær sem varð svo til þess að henni var vikið af velli.  Birna og Gunnhildur Gunnarsdóttir leikmaður Snæfell duttu saman í gólfið og þegar yfir lauk virtist Birna ýta/sparka frá sér sem varð til þess að Davíð Tómas, dómari leiksins dæmdi á hana U-villu (óíþróttamannslega)  Samkvæmt heimildum Karfan.is þá virtust dómarar leiksins ræða málið sín á milli og úr varð að U-villa var uppfærð í D-villu sem er brottrekstrarvilla.  Dæmi hver fyrir sig og við hér á Karfan.is leggjum ekki dóm á þetta. 

 

Hinsvegar þýðir þetta að atvikið er kært til aga og úrskurðarnefndar KKÍ og sú nefnd tekur málið fyrir. Samkvæmt reglugerðum gæti Birna átt yfir höfði þriggja leikja bann þó vissulega muni nefndin úrskurða um vægi brotsins.  Í 13. grein laga c lið stendur eftirfarandi: Hafi einstaklingi verið vísað af leikvelli eða keppnisstað fyrir alvarlega grófan leik eða ósæmilega framkomu skal aga- og úrskurðarnefnd úrskurða viðkomandi í eins eða tveggja leikja bann.

Hinsvegar í lið d í sömu reglu segir: Hafi einstaklingi verið vísað af leikvelli eða keppnisstað vegna viljandi líkamsmeiðingar eða tilraunar til slíks þá skal aga- og úrskurðarnefnd úrskurða viðkomandi í þriggja leikja bann. 

 

 Það mun því vera í höndum nefndarinnar að fjalla um málið og dæma um vægi brotsins.  Eftir því sem Karfan.is kemst næst fer málið í meðferð fyrir næsta leik sem er á miðvikudag nk. í Keflavík. 

 

Fréttir
- Auglýsing -