Nýliðarnir í 1. deild karla og nágrannar forsetans halda áfram að sýna að þeir ætli sér eitthvað annað og mikið meira en að vera bara með á næstu leiktíð. Eftir að hafa bætt við stoðsendingahæsta leikmanni Úrvalsdeildarinnar frá upphafi, Justin Shouse, og fyrrum stigakóngi 1. deildarinnar, Samuel Prescott, á dögunum þá samdi félagið við Þorstein Finnbogason og Birgir Björn Pétursson í dag.
Birgir Björn, sem er rúmlega 2 metra miðherji, hefur leikið megnið af ferli sínum með KFÍ/Vestra og Val en hann hefur einnig leikið með Njarðvík, Þór Þorlákshöfn, Stjörnunni og þýska félaginu UBC Münster. Hann hjálpaði Val tvívegis upp um deild en varð einnig Meistari Meistaranna með Stjörnunni árið 2009. Hans besta tímabil tölfræðilega séð var veturinn 2014-2015 þegar hann var með 17,7 stig og 12,5 fráköst að meðaltali fyrir KFÍ í 1. deildinni. Tímabilið á undan var hann með 14,0 stig og 9,9 fráköst fyrir Val í Úrvalsdeildinni. Birgir lék ekkert á síðastliðinu tímabili eftir að hafa meiðst fyrir tímabilið á æfingu með Val.
Þorsteinn hefur spilað stærstan hluta síns ferils með uppeldisfélagi sínu í Grindavík þar sem hann varð Íslandsmeistari vorið 2012. Hann lék með Haukum frá 2012 til 2014 og með Breiðablik á síðastliðinu tímabili. Hans besta tímabil var veturinn 2016-2017 er hann var með 7,4 stig og 4,7 fráköst fyrir Grindavíkurliðið sem fór í oddaleik á móti KR um Íslandsmeistaratitilinn.