Birgir Björn Pétursson er genginn til liðs við Val og leikur sinn fyrsta leik með félaginu í kvöld þegar Valsmenn mæta Þór Akureyri fyrir norðan í 1. deild karla. www.valur.is greinir frá. Birgir hóf yfirstandandi leiktímabil með Stjörnunni en sagði skilið við Garðbæinga seint á síðasta ári.
Á heimasíðu Vals segir:
Birgir Björn er öflugur miðherji og hefur leikið með Stjörnunni síðan 2009. Hann er Ísfirðingur og lék með KFÍ frá unga aldri og var einn af burðarásunum í liði Ísfirðinga. Birgir Björn er rúmir 2 metrar á hæð og kemur til með að styrkja lið Valsmanna fyrir átökin í seinni umferð Íslandsmótsins.