spot_img
HomeFréttirBikarmeistararnir kafsigldu Fjölni

Bikarmeistararnir kafsigldu Fjölni

7:25

{mosimage}

Fjölnismenn töpuðu fyrir ÍR með 33 stiga mun í kvöld í Seljaskóla og eru því enn með 8 stig þegar að 3 leikir eru eftir í deildinni. Nokkurt jafnræði var með liðunum í fyrstu tveimur leikhlutunum en í þeim þriðja völtruðu ÍR-ingar gjörsamlega yfir okkar menn sem sátu andlausir eftir.  

 

Byrjunarlið Fjölnis: Valur, Tryggvi, Hörður, Nemanja, Kareem. ÍR skoruðu fyrstu 6 stig leiksins úr þriggja stiga körfum en Hörður skoraði fyrstu körfu okkar manna með þriggja stiga eftir einnar mínútu leik. Nate Brown tók fljótlega við sér í liði ÍR-inga og setti fjögur stig í röð og kom ÍR yfir 12-6. Við tókum þá við okkur en fyrir lok leikhlutans náðu ÍR 8 stiga forystu, 27-19. Kareem skoraði fyrstu körfu annars leikhluta en Hreggviður svaraði með þriggja stiga körfu. Stuttu seinna skoraði Hjalti og fékk vítaskot og minnkaði muninn í aðeins 3 stig, 30-27. Þá tóku þriggja stiga skyttur heimamanna við sér og Ólafur og Sveinbjörn settu sitthvora. Fjölnismenn tóku svo leikhlé í stöðunni 40-30. Þegar að tvær mínútur voru eftir af leikhlutanum tróð Kareem harkalega og minkaði muninn í 8 stig. Leikhlutinn endaði svo 52-41. Í þriðja leikhluta hrundi allt sem kallast sóknarleikur í liði Fjölnis, einnig hrundi allt sem kallast varnarleikur og það sem verst var að það sem sumir vilja kalla baráttu var hvergi að finna í leik Fjölnis. Við skoruðum körfu í upphafi leikhlutans í stöðunni 54-43 og svo skoruðum við ekki stig næstu 6 mínúturnar. Á meðan skoruðu ÍR-ingar 20 stig og loks þegar að staðan var orðin 74-43 setti Hörður niður 2 víti fyrir Fjölnismenn og 3 mínútur eftir af leikhlutanum. Þegar að flautan gall mátti finna mikinn létti hjá stuðningsmönnum og leikmönnum Fjölnis og staðan orðin 84-50. Síðasti leikhlutinn var rólegur og óspennandi. Jafnræði var með liðunum og ÍR ingar með öruggan leik í höndunum. Erlendu leikmenn okkar voru látnir hvíla og íslensku strákarnir fengu að spreyta sig. Að lokum fór svo að ÍR sigruðu með 33 stigum, 101-68. Tölfræði leiksins

Það má með sanni segja að þetta sé leikur sem Fjölnismenn vilja gleyma sem fyrst. Við gáfumst mjög auðveldlega upp og það er óhætt að segja að við höfum fært ÍR þennan sigur á silfurfati. Nú fer baráttan harnandi enda aðeins 3 leikir eftir í deildinni. Strákarnir þurfa því að hysja upp um sig buxurnar og mæta snældu vitlausir í leikinn gegn Íslandsmeisturum Njarðvíkur á fimmtudaginn.

www.fjolnir.is/karfa

Mynd: karfan.is

Fréttir
- Auglýsing -