Dagur rauða nefsins er á morgun og fyrir viðureign Stjörnunnar og KR í Domino´s deild karla í kvöld settu leikmenn liðanna, dómarar og aðrir starfsmenn leiksins upp rauðu nefin til styrktar UNICEF. Röndóttir KR-ingar voru þó ekki með nein trúðslæti þegar leikar hófust og settust snemma við stýrið og kláruðu Stjörnuna 73-84. Helgi þjálfari Magnússon setti venju samkvæmt niður stórar körfur en hann, Brynjar Þór og Martin voru beittir í liði gestanna á meðan heimamenn áttu vísast einn sinn lakasta leik á tímabilinu.
Kristófer Acox var vart orðinn heitur og hvorugt lið komið með stig á töfluna þegar hann varði hraustlega skot frá Marvin Valdimarssyni sem reyndi að brjóta sér leið upp að körfunni. Heimamenn í Garðbæ voru þó engu að síður fyrri til að láta að sér kveða og komust í 6-0 áður en Brynjar Þór Björnsson skoraði og fékk villu að auki og minnkaði muninn í 6-2 þar sem hann brenndi af vítinu sem er ekki algengt á þeim bænum. Fyrstu þrjú stig KR komu eftir rúmlega þriggja mínútna leik! Gestirnir jöfnuðu sig þó fljótt og við tók magnað áhlaup.
Stjarnan komst í 10-6 en KR spýtti í lófana og jók muninn í 10-20, 14-0 áhlaup og heimamenn tóku leikhlé til að ráða sínum ráðum og til að bæta gráu ofan á svart var Marvin Valdimarsson kominn með þrjár villur í fyrsta leikhluta þar sem hann fékk eitt tæknivíti eftir samskipti sín við einn dómara leiksins. Helgi Magnússon átti lokaorðið í leikhlutanum með körfu í teignum eftir stoðsendingu frá Martin Hermannssyni og staðan 12-23 eftir fyrsta leikhluta. Sterkur sprettur hjá KR eftir þunna byrjun og þeir komust heldur betur á bragðið með þéttum varnarleik.
Keegan Bell tók upp á því að skora fyrir KR og skellti niður þrist og Helgi fylgdi skömmu síðar með annan og staðan 12-29 fyrir KR og heimamenn sem hafa getað státað af sterkri vörn í Ásgarði láku eins og gatasigti.
Stjörnumenn voru oft að flýta sér og völdu erfiðu skotin og Teitur Örlygsson lét þá heyra það af hliðarlínunni, skipaði mönnum að hægja á sér og komast í takt við leikinn. Martin Hermannsson var beittur í öðrum leikhluta og gerði þar níu stig en hann var stigalaus fyrstu tíu mínútur leiksins. Dagur Kár Jónsson minnkaði muninn í 19-33 með þrist fyrir Stjörnuna en heimamenn voru ekki að hitta vel í kvöld. Í öðrum leikhluta brenndu Garðbæingar m.a. af fimm vítum í röð og munurinn skaust fljótt upp í 19 stig, 21-40 eftir þriggja stiga körfu frá Martin.
Garðbæingar náðu þó að klóra frá sér undir lokin og lokuðu fyrri hálfleik með 10-3 rispu og staðan því 31-43 fyrir KR í leikhléi. Justin Shouse var með 9 stig og Brian Mills 8 stig í hálfleik hjá Stjörnunni en hjá KR var Brynjar Þór með 11 stig, Helgi Magnússon 10 og Martin 9, öll í öðrum leikhluta.
Þriðji leikhluti var öllu jafnari en fyrri hálfleikur, Justin Shouse minnkaði muninn í 39-49 með þrist en KR hélt Stjörnunni ávalt í góðri fjarlægð. Gestirnir léku fast og voru ófeimnir við að fá villur, Garðbæingar urðu með hverri mínútunni feimnari við að sækja á körfuna og það veit ekki á gott þegar skotin vilja ekki detta.
Keegan Bell átti einn sinn besta leik í KR búning hérlendis í kvöld og kom KR í 47-63 með þriggja stiga körfu og Helgi Magnússon varð svo aftur til þess að loka leikhluta er hann kom KR í 52-67 með teigskoti þegar leiktíminn rann út og 15 stiga munur á liðunum fyrir fjórða og síðasta hluta.
Nokkrum sinnum í fjórða leikhluta virtust heimamenn vera að smokra sér nærri KR og þegar best lét var staðan 64-73 fyrir KR en þá varð þjálfarinn Helgi Magnússon að taka til sinna ráða og smellti niður stórustráka þrist og jók muninn í 64-73. KR gerði vel að halda sjó, Stjarnan sótti nokkrum sinnum stíft að þeim en röndóttir kláruðu leikinn 73-84.
Helgi, Brynjar og Martin fóru fyrir KR í kvöld en röndóttir voru hungraðir að þessu sinni, hungraðir eftir að hafa dottið út úr bikarnum og tapað heima gegn Grindavík í síðustu umferð deildarinnar svo Stjarnan fékk þá í fangið sársvanga. Þetta var án efa besti leikur KR á tímabilinu og forvitnilegt að sjá hvernig byggt verður ofan á þennan sterka útisigur í vesturbænum. Garðbæingar að sama skapi voru einfaldlega of linir í kvöld og varnarleikur þeirra sem hefur verið sterkur á heimavelli upp á síðkastið var ekki upp á marga fiska. Marvin og Jovan komust aldrei í gang og það var dýrt að þessu sinni.
Við birtum tölfræði leiksins um leið og hún verður aðgengileg.
Byrjunarlið Stjörnunnar: Justin Shouse, Dagur Kár Jónsson, Marvin Valdimarsson, Brian Mills og Fannar Freyr Helgason.
Byrjunarlið KR: Martin Hermannsson, Brynjar Þór Björnsson, Helgi Magnússon, Kristófer Acox og Finnur Atli Magnússon.
Mynd/ Heiða
Umfjöllun/ [email protected]