spot_img
HomeNeðri deildir1. deild karlaBesti leikmaður fyrstu deildarinnar í Forsetahöllina

Besti leikmaður fyrstu deildarinnar í Forsetahöllina

Álftanes hefur samið við Viktor Mána Steffensen fyrir komandi tímabil í fyrstu deild karla. Staðfestir félagið þetta á samfélagsmiðlum fyrr í dag.

Viktor er 22 ára gamall bakvörður sem kemur til Álftaness frá Fjölni í fyrstu deildinni, en eftir síðasta tímabil var hann valinn besti leikmaður deildarinnar eftir að hafa skorað 18 stig, tekið 4 fráköst og gefið 3 stoðsendingar að meðaltali í leik á tímabilinu.

„Ég er ekkert smá spenntur fyrir komandi tímabili með Álftanesi. Frábært þjálfarateymi, mikill metnaður og reynslumiklir leikmenn sem ég hlakka til að fá að spila með. Auk þess flott stjórn og frábær stemning fyrir körfunni á Álftanesi. Ég hlakka til þess að fá að skína með þeim,“ segir Viktor Steffensen.

„Viktor er gríðarlega spennandi leikmaður sem við fylgdumst vel með á leiktíðinni sem nú var að ljúka. Hann getur skorað á marga vegu, er hávaxinn og mikill íþróttamaður, les leikinn vel og er með virkilega gott hugarfar. Á nesinu ríkir mikil gleði með að Viktor sé kominn til okkar,“ segir Kjartan Atli Kjartansson, þjálfari Álftaness.

Fréttir
- Auglýsing -